Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Dómsmálaráðherra kynntur í byrjun september

21.08.2019 - 19:31
Mynd: Samsett mynd / RÚV
Ríkisráðsfundur hefur verið boðaður 6. september þar sem telja má líklegt að nýr dómsmálaráðherra verði kynntur til sögunnar. Óvissa hefur ríkt um skipanina síðan í mars. 

Sigríður Andersen sagði af sér sem dómsmálaráðherra þrettánda mars þegar Mannréttindadómstóll Evrópu úrskurðaði að hún hefði brotið lög við skipun dómara við Landsrétt. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir tók við embættinu auk þess að gegna áfram þeim sem hún hafði fyrir. Sú skipun á að vera tímabundin og hefur verið óljóst síðan þá hver tæki við embættinu út kjörtímabilið. 

Að sögn stjórnmálamanna sem fréttastofa hefur rætt við er Þórdís Kolbrún talin besti kandídatinn í starfið. Hún er varaformaður Sjálfstæðisflokksins, lögfræðingur, með reynslu af þingstörfum en þekkir einnig ráðuneytið vel eftir að hafa verið aðstoðarmaður Ólafar Nordal innanríkisráðherra frá 2014-16.  

„Ég sagði strax í upphafi að þetta yrði tímabundið og ég hef verið í ráðuneytinu, ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar í tvö ár og ég er þar með mjög stór verkefni á borðinu og vil koma þar ákveðnum hlutum til framkvæmda.“ sagði Þórdís Kolbrún í Silfrinu í apríl. 

Fleiri nöfn hafa einnig verið nefnd. 
Þar er efst á blaði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir. Áslaug er ritari flokksins, lögfræðingur og formaður utanríkismálanefndar Alþingis. Viðmælendur fréttastofu töldu hana hafa vaxið mikið sem þingmaður á þessu kjörtímabili, en hún var kjörin á þing 2016.

Birgir Ármannsson var einnig nefndur sem líklegt ráðherraefni. Hann er þingflokksformaður, lögfræðingur og hefur setið á þingi frá 2003. Talið er að hann geti auðveldlega brúað bilið milli eldri og yngri flokksmanna. 

Brynjar Níelsson er lögfræðingur og hefur setið á þingi frá 2013. Það gæti orðið flókið að skipa hann ráðherra þar sem eiginkona hans er Arnfríður Einarsdóttir, einn fjögurra dómara sem Sigríður Andersen skipaði með ólögmætum hætti. Þá er einnig talið að þrýst sé á Bjarna Benediktsson formann að skipa konu í embættið, bæði innan flokks og utan. 

Að því sögðu er rétt að taka fram að Bjarni útilokar ekki endurkomu Sigríðar eins og kom skýrt fram á nýliðnum fundi Sjálfstæðisflokksins. „Að sjálfsögðu á Sigríður Andersen endurkomu í ríkisstjórn. Það er bara engin spurning að hún getur átt endurkomu í ríkisstjórn og ekkert sem getur komið í veg fyrir það.“ 

Samkvæmt heimildum fréttastofu verður það þó að teljast ólíklegt að Sigríður verði aftur dómsmálaráðherra á meðan landsréttarmálið hefur ekki verið til lykta leitt hjá Mannréttindadómstólnum.

Ríkisráðsfundur hefur verið boðaður 6. september, þar sem telja má líklegt að nýr ráðherra taki við. 

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV