Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Dómsmálaráðherra í mótsögn við sjálfa sig

09.12.2019 - 12:12
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra sagði í gærkvöldi að Landsréttarmálið hefði ekki mikið fordæmisgildi. Yfirdeild Mannréttindadómstólsins er nú með málið til skoðunar. Þetta er þvert á það sem Áslaug Arna sagði í september. Stjórnvöld sögðu jafnframt í apríl að Landsréttarmálið væri fordæmisgefandi um alla Evrópu og því yrði að skjóta því til yfirdeildar.

Fyrir helgi var sagt frá því að pólsk stjórnvöld hefðu óskað eftir því við yfirdeild mannréttindardómstólsins að fá að skila inn skriflegri greinargerð vegna Landsréttarmálsins. Í beiðni Pólverja segir að Landsréttarmálið skipti miklu máli og tengist breytingum sem Pólverjar hafi gert og vilji gera á dómskerfinu. Pólverjar hafa hlotið gagnrýni vegna þeirra og sagði formaður Dómarafélags Íslands um helgina að það væri verulegt áhyggjuefni að Ísland væri komið í félagsskap ríkja sem hefðu sjálfstæði dómstóla að engu. Dómsmálaráðherra vísaði því á bug að við værum komin í félagsskap með Pólverjum enda væri málið ekki fordæmisgefandi. 

„Það hafa auðvitað verið ýmsar skoðanir á því og við höfum talið að þetta mál hafi ekki mikið fordæmisgildi, nei,“ sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir í fréttum RÚV í gærkvöldi.

Þessi staðhæfing hennar er í ósamræmi við það sem hún sagði þann 9. september, þá nýorðin dómsmálaráðherra. Tilefnið var að yfirdeild dómstólsins hafði ákveðið að taka Landsréttarmálið fyrir.  „Þetta er bara mjög ánægjulegt, við lögðum auðvitað áherslu á að málið færi til yfirdeildarinnar til endurskoðunar og vildum láta endurskoða málið af því að við töldum niðurstöðuna ganga of langt og hún getur auðvitað einnig haft fordæmisgildi,“ sagði Áslaug Arna í september. 

Ríkisstjórnin beitti sömu rökum þann 9. apríl þegar þáverandi dómsmálaráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, tilkynnti um ákvörðun íslenskra stjórnvalda að skjóta Landsréttarmálinu til yfirdeildar Mannréttindadómstólsins.  „Þetta hefur líka áhrif á önnur Evrópuríki og við vitum ekki hvenær það mun reyna á svona mál aftur,“ sagði Þórdís Kolbrún.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði á Alþingi þann 18. mars um dóm mannréttindadómstólsins að hann kunni að hafa verulega þýðingu fyrir önnur aðildarríki sáttmálans hvað varðar skipan dómsvaldsins.