Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Dómari víkur í máli Áslaugar gegn Orku náttúrunnar

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Dómari í máli Áslaugar Thelmu Einarsdóttir gegn Orku náttúrunnar hefur ákveðið að víkja þar sem eiginmaður hennar er að taka við starfi innan samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur. Þetta staðfesta lögmenn Áslaugar og Orku náttúrunnar.

Áslaug, sem er fyrrverandi forstöðumaður einstaklingsmarkaðar hjá Orku náttúrunnar, stefndi fyrirtækinu fyrir að hafa mismunað henni í launum á grundvelli kyns og krefst jafnframt bóta fyrir ólögmæta uppsögn. ON  hafnar báðum kröfum hennar.

Áslaugu Thelmu var sagt upp störfum í september í fyrra eftir að hafa, að eigin sögn, margítrekað kvartað undan framkomu yfirmanns síns og þáverandi forstjóra ON, Bjarna Más Júlíussonar. Bjarna var í sama mánuði sagt upp vegna óviðeigandi hegðunar við samstarfsfólk.

Málið vakti mikla athygli í fjölmiðlum. Bjarni Bjarnason, forstjóri OR fór að eigin ósk í tímabundið leyfi vegna málsins á meðan rannsókn færi fram innan Orkuveitunnar en hann hafði verið gagnrýndur fyrir aðgerðaleysi. 

Í lok nóvember var niðurstaða úttektar innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar á vinnustaðarmenningu og tilteknum starfsmannamálum fyrirtækisins kynnt. Samkvæmt henni var uppsögn Áslaugar réttmæt, sem og uppsögn Bjarna Más. Í kjölfarið ákvað stjórn OR að framlengja uppsagnarfrest þeirra um tvo mánuði.