Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Dómari í Namibíu kyrrsetur Heinaste

22.11.2019 - 11:42
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot/NBC
Yfirvöld í Namibíu hafa ákveðið að kyrrsetja risatogarann Heinaste samkvæmt úrskurði dómara í dag sem fréttastofa hefur undir höndum. Togarinn er í eigu félags í Namibíu sem Samherji á hlut í. Arngrímur Brynjólfsson, skipstjóri á Heinaste, var handtekinn og leiddur fyrir dómara í gær.

Ekki hefur náðst í Björgólf Jóhannsson, starfandi forstjóra Samherja, vegna málsins. Kyrrsetningin virðist gerð til að hægt sé að leita í skipinu.

Arngrímur sendi fjölmiðlum yfirlýsingu í gær þar sem hann sagðist ekki hafa gerst sekur um brot. Hann sagði að það hefði komið honum á óvart að vera sakaður um að hafa siglt skipi inn á lokað svæði. Hann þurfti að gista fangageymslur eina nótt. Arngrímur var sakaður um að hafa verið við veiðar á hrygningarsvæði undan ströndum Namibíu.  Honum var gert að leggja inn vegabréfið sitt og var máli hans frestað fram í lok janúar.

Heinaste hefur áður ratað í fjölmiðla. Tvö fyrrverandi samstarfsfyrirtæki Samherja í Namibíu stefndu félagi Samherja, Esju Holding í Namibíu, til að koma í veg fyrir að skipið yrði selt. Dómari vísaði kröfu félaganna frá.