Um hundrað manns voru í dag á seinni stofnfundi Dögunar, samtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Samtökin höfðu gegnt vinnuheitinu Breiðfylkingin.
Lýður Árnason, læknir og einn af forsvarsmönnum samtakanna, segir að enginn formaður verði í Dögun heldur talsmenn, tengdir málaflokkum. Fimm voru kjörnir í dag og tveir verða valdir slembivali úr röðum félagsmanna. Í dögun sameinast Hreyfingin , Borgarahreyfingin, Frjálslyndi flokkurinn og ráðsmenn úr stjórnlagaráði undir einn hatt. Í kjarnastefnu samtakanna kemur fram að leggja á áherslu á að bæta stöðu heimilanna, lýðræðisumbætur, uppstokkun á stjórn fiskveiða, siðvæðingu stjórnsýslu og fjármálakerfis, uppgjör við hrunið og Evrópusambandið.