Djöfullinn dansar í Þjóðleikhúsinu

Mynd: RÚV / RÚV

Djöfullinn dansar í Þjóðleikhúsinu

06.01.2020 - 20:00

Höfundar

Sterk ást á bók og texta verður uppfærslu á Meistaranum og Margarítu til trafala, að mati Brynhildar Björnsdóttur gagnrýnanda. Leikhópurinn skili glæstri frammistöðu en erindið til samtímaleikhússgesta sé takmarkað.

Brynhildur Björnsdóttir skrifar: 

Meistarinn og Margaríta er ein þekktasta og að margra mati besta skáldsaga 20. aldarinnar. Sem er áhugavert þar sem höfundurinn Mikhaíl Búlgakov náði ekki að klára hana fyrir dauða sinn árið 1940 þrátt fyrir að hafa unnið að skrifunum í tólf ár. Hún gerist í Moskvu á Stalínstímanum, djöfullinn kemur í heimsókn til borgarinnar í þeim tilgangi að því er virðist að fletta ofan af listaelítu borgarinnar, hræsni hennar og yfirborðsmennsku. Inn í þessar áætlanir hans fléttast, þó með frekar óskýrum hætti, rithöfundur sem hefur verið læstur inni á geðsjúkrahúsi og vinkona/ástkona hans Margaríta sem kallar rithöfundinn Meistara og hefur óbilandi trú á snilld hans. Meistarinn skrifaði eitt sinn sögu um Pontíus Pílatus og það hvað raunverulega gæti hafa gerst milli hans og smiðsonarins frá Nasaret um páskaleytið fyrir árþúsundum síðan og við fáum innsýn í þá skáldsögu sem um raunverulega atburði væri að ræða. Djöfullinn sem birtist Moskvubúum í hlutverki hins erlenda prófessors Wolands, freistar Margarítu með loforði um völd og fegurð en hún stenst gylliboð hans og vill aðeins fá að endurlifa fornar sælustundir með Meistaranum. Vitni að þessu öllu og sá sem spyr þeirra spurninga sem ráðvilltir lesendur spyrja eflaust líka er svo ljóðskáldið Ivan Bésdomní sem verður vitni að yfirnáttúru Wolands í upphafi sögunnar en er svo læstur inni á sama geðsjúkrahúsi og Meistarinn þegar hann reynir að segja frá upplifun sinni. 

Frelsi andans, gott og illt

Það er eins og áður sagði nokkuð merkilegt að ófullgerð skáldsaga skuli hafa hlotið slíkar vinsældir. Til þess ber þó að líta að verkið kom fyrst út á Vesturlöndum í lok sjöunda áratugarins og hafði þá mikil áhrif, hugmyndir um frelsi andans og listarinnar, andstaða við ritskoðunartilburði og flókið eðli hins góða og illa og samspil þess, áttu vel upp á pallborðið á þeim tíma auk þess sem tímabilið þegar sagan gerist og afleiðingar þess í Sovétríkjunum standa Vesturlandabúum þá nokkuð nærri. Þá ber einnig mögulega að þakka leyndardóminum og harmleiknum sem felst í hinu ófullgerða skáldverki, óþoli lesenda að fá ekki að vita meira, vita hvað höfundurinn raunverulega ætlaði sér. Og það er kannski þess vegna sem verkið ratar svo oft á leiksvið sem raun ber vitni en sagan hefur verið sviðsett að minnsta kosti fimmhundruð sinnum, auk þess að hafa orðið innblástur að kvikmyndum, ballettum, óperum og fjölda dægurlaga, til að mynda Symphathy for the Devil með Rolling Stones. 
Búlgakov var leikhúsmaður og leikskáld og ef til vill býr djúpt í leikhúsfólki þrá til að ljúka verki hans á sviði, finna lausn og niðurlag í þessa ófullgerðu en heillandi sögu af upplausn og andans sigrum. Hér á landi er skemmst að minnast uppfærslu Hafnarfjarðarleikhússins árið 2004 þar sem Hilmar Jónsson var við stjórnvölinn en svo vill til að hann er það einnig í þessari uppfærslu Þjóðleikhússins sem var frumsýnd á annan í jólum. Í þessu tilviki er leikgerðin ekki Hilmars heldur fengin að láni frá Dramaten í Stokkhólmi. 

Stytta og snerpa

Í upphafi lofaði sýningin nokkuð góðu, með brellum og andrúmslofti sem virtist sækja ýmislegt í ritunartíma verksins. Fljótlega fór þó að bera á ástinni til bókarinnar og textans sem varð sýningunni æ meira til trafala eftir því sem leið á, hún var alltof löng og alltof þung og  þó hún ætti nokkra virkilega góða og leiftrandi spretti var heildin ekki nærri því nógu áhugaverð. Gengið virðist út frá forþekkingu og foráhuga áhorfenda á sögunni, nokkuð sem þarf að fara varlega með í leikhúsi. Í því samhengi má þá einnig velta fyrir sér af hverju ekki var reynt að koma stærra sögulegu samhengi sögunnar skýrar til skila til áhorfenda dagsins í dag. Ritskoðunartilburðir í Sovétríkjunum, kúgun listamanna og hins frjálsa anda hafa allt verið minni sem lesendur verksins á sjöunda og áttunda áratugnum þekktu mæta vel, en í dag, þar sem slíkir tilburðir eru vissulega fyrir hendi en hafa ólíkar birtingarmyndir, og ýmis önnur samfélagsmál eru jafn eða meira knýjandi, hefði kannski verið nær að láta verkið tala meira ákveðið við samtímann með einhverjum hætti. Hvorugt er gert af þeirri ákveðni sem hefði kannski verið þörf. Þriðji möguleikinn hefði verið að stytta verkið og snerpa og leggja áherslu á fáránleikann og sjónarspilið en það var heldur ekki nógu afgerandi þó atriði eins og leikhúsatriðið, kórstjórnin og dansleikurinn hafi verið flott og sviðsvæn. Eftir stendur þá spurningin af hverju þetta verk er talið eiga erindi einmitt núna á stóra svið Þjóðleikhússins í íburðarmikilli uppfærslu og henni er því miður ekki svarað sem skyldi. Listrænir stjórnendur og leikarar gerðu þó margir vel eftir því sem efni stóðu til.  

Hæfilega óhugnanlegur

Leikmynd Sigríðar Sunnu Reynisdóttur var að mörgu leyti lausnamiðuð og pæld. Verkið gerist á mörgum stöðum og er farin sú leið að draga upp sögusviðin frekar en að búa þeim stað í huga áhorfenda, nokkuð sem staðsetur verkið í tíma en gefur samt einmitt enga vísun um þann tíma, nema helst þegar Jerúsalem er sögusviðið. Leikgervin og búningarnir voru vel gerð af Evu Signýju Berger og Tinnu Ingimarsdóttur, einkum var Nosferatu vampíran Hella í fylgdarliði Wolands óhugnanleg, sem og gestirnir á djöfladansleiknum. 

Woland var afar skemmtilegur og hæfilega óhugnanlegur í meðförum Sigurðar Sigurjónssonar og alltaf gaman þegar sá mæti leikari fær að láta ljós sitt skína. Fylgdarlið hans var líka áhrifamikið, einkum þegar þau voru öll saman, Ebba Katrín fór afar vel með hlutverk kórstjórans Fagot og María Thelma var sannfærandi og óhugnaleg sem vampíran Hella. Kötturinn Behemot var leikinn af Oddi Júlíussyni og náði ekki alveg að uppfylla væntingar, hann var of pirraður á hlutskipti sínu og naut þess ekki nógu vel að leika sér að mannfólkinu.  

Of margt dregið á langinn

Pálmi Gestsson hélt sínu í hlutverki Pílatusar, var hæfilega togstreittur yfir hinum ámátlega og ráðvillta Jesúa Ha Nostri sem Stefán Hallur skilaði ágætlega, og sagan og fyrirveltingarnar um það hver Jesú frá Nasaret mögulega, raunverulega var er eitt það eftirminnilegasta í bókinni, einkum þegar guðspjallamaðurinn Matteus kemur til sögunnar. Bjarni Snæbjörnsson er fyndinn í hlutverki sínu sem ljóðskáldið og áhorfandinn Ívan og leikhópurinn í heild stendur sig vel í fjölbreyttum hlutverkum þó erfitt væri að henda reiður á því stundum hver væri hvað og af hverju örlög viðkomandi ættu erindi við áhorfendur. 

Meistarann og Margarítu leika Stefán Hallur Stefánsson og Birgitta Björnsdóttir og komast ágætlega frá hlutverkum sem eru dauflega skrifaðar og óáhugaverðar persónur af höfundarins hendi miðað við til dæmis fylgdarlið Wolands. Margaríta nær þó aðeins flugi (bókstaflega ) í seinni hluta verksins en það atriði var dregið allt of mikið á langinn eins og raunar svo margt í þessari sýningu. 

Meistarinn og Margaríta er verk sem talaði sterkt inn í tuttugustu öldina. Þessi leikgerð virðist mér hins vegar ekki leggja mikið af mörkum til þess að sannfæra samtímann um sígildi þess eða erindi handan samtímalegs samhengis.