Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Djöfullegur dagur“ og allt á floti á Sauðárkróki

10.02.2020 - 19:15
Mynd: Fréttir / Fréttir
Færð á vegum spilltist víða á Vestfjörðum og Norðurlandi í dag vegna veðurs og fjallvegir eru margir hverjir lokaðir. Hættuástandi vegna snjóflóða var lýst yfir í Súðavíkurhlíð og Ólafsfjarðarmúla og rafmagnslaust var fram yfir hádegi frá Kelduhverfi austur á Þórshöfn vegna bilunar í tengibúnaði við Laxárvirkjun. Sjávarstaða var há og á norðanverðu landinu flæddi víða yfir hafnarsvæði.

„Það var ekki ráðið við neitt“

Á Siglufirði gekk sjór yfir land og flæddi inn í fyrirtæki. Það sama var uppi á teningnum á Sauðárkróki þar sem flæddi yfir varnargarða og í fyrirtæki við bryggjuna. Sigurður Bjarni Rafnsson, framleiðslustjóri Kaupfélags Skagfirðinga, segist ekki hafa lent í öðru eins þau fimmtán ár sem hann hefur starfað fyrir Kaupfélag Skagfirðinga. „Þetta er náttúrulega bara búinn að vera alveg djöfullegur dagur. Það byrjaði að flæða hérna um ellefu leytið inn til okkar. Þá reyndum við að stífla allt hérna bæði með að fá vélar til þess að moka snjó að hurðunum hjá okkur og færðum gámana fyrir utan til að reyna að stýra vatnselgnum frá húsinu -  en það var ekki ráðið við neitt.“

Slökkviliðið hafi þá komið til aðstoðar og dælt vatni úr húsinu.  Að sögn Sigurðar hefur eftir það gengið vel að halda flóðinu í skefjum. Gríðarlega mikið vatn hafi þó komist inn í húsið og starfsfólk hafi eytt deginum í hreinsunarstörf. Ekki verði unnt að slátra þessa vikuna og afgreiðsla á pöntunum frestast. „Það er náttúrulega stórstreymt og flóð aftur í kvöld þannig að við erum að reyna að hefta það að það leki aftur inn í kvöld svo við lendum ekki í sama ruglinu aftur.“ 

Laskaðir varnargarðar héldu ekki

Dagur Þór Baldvinsson, hafnarstjóri, tekur í sama streng og segist ekki hafa séð annað eins flóð. Varnargarðarnir, sem séu laskaðir eftir óveðrið í desember, hafi ekki haldið. „Það er stórstreymt og áhlaðandi út af loftþrýstingi og ölduhæð sem er mikil hérna, og það flæðir bara yfir allan Eyrarveginn eins og hann leggur sig.“

Í dag hafi verið reynt að moka rásir til að hleypa sjónum aftur niður og byggja varnargarða til að ekki flæði inn hjá fyrirtækjum. Grjótagarðarurinn hafi þó látið á sjó eftir daginn og ljóst sé  að leita þurfi til Vegagerðarinnar og óska eftir fjármagni til að bæta garðana.