Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

DGNÐR, elja og þolgæði

Mynd með færslu
 Mynd: GDRN

DGNÐR, elja og þolgæði

29.02.2020 - 15:57

Höfundar

GDRN gefur hér út aðra breiðskífu sína og er hún samnefnd henni. Frumburðurinn var svellkaldur og svalur en hér er hins vegar meira um birtu og yl.

Fyrsta plata, GDRN, Hvað ef, vakti á henni verðskuldaða athygli. Svalt og nýmóðins r og b, stálkalt flæði og minimalískt. Heilsteypt verk og skarpar línur dregnar, hvort heldur í tónlist eða almennri framsetningu. Já, GDRN steig í raun fullmótuð fram, öll stílisering á hreinu, veri það í framkomu, útliti, umslagshönnun o.s.frv. GDRN leit út eins og poppstjarna frá fyrsta degi og þá er hálfur björninn unninn.

Á þessari plötu sem GDRN (Guðrún Ýr Eyfjörð) vinnur með Magnúsi Jóhanni Ragnarssyni og Arnari Inga Ingasyni kveður við annan tón þó að grunnstoðin sé sú sama. Notum árstíðirnar til að skilja þetta. Yfir fyrstu plötunni var haustblær, fagrir en fölir lit. Viss fjarlægð og kuldi, sem gerði hana svala. Dálítið nýjabrum líka og hráleiki sem gerði plötuna í raun ómótstæðilega. Styrkur sakleysisins. En nú er komið vor. Hiti og gróðurinn er að lifna við. Mýkt, hlýja og sól. Þetta er undirstrikað með lifandi hljóðfæraleik, sem vísar grimmt í sálar- og fönktónlist áttunda áratugarins (og enn frekar er á þessu hnykkt með umslagi og leturgerð).

Vorbragur

Platan byrjar enda með lagi sem heitir „Vor“. Það fellur miðja vegu á milli gömlu plötunnar og þessa nýja sniðs, svona eins og til að róa mannskapinn (okkur) aðeins. Hipp-hopp taktar en líka vel grúvandi hljóðgervill og píanó. Heitt og kalt. Söngur er lágstemmdur en um leið svalur og seyðandi. „Af og til“ færir okkur nær sálargrúvinu sem er unnið með út plötuna. Gamlar íslenskar sveitir eins og Þú og ég og Ljósin í bænum koma í hugann, jafnvel Jóhann G. Samtímasveitir eins og Boogie Trouble hafa og verið að vinna með þetta. Bresk ný-sálartónlist frá tíunda áratugnum (Brand New Heavies, Galliano) gerir líka vart við sig. Þetta skapalón er fullkomnað á „Upp“, melódískt sálarpopp og giska langt frá því afstrakt r og b-i sem lék um fyrstu plötuna. Fjórða lagið, „Hugarró“, er síðan gott dæmi um það er GDRN fer hreinlega of nálægt óspennandi svamli í meginstraumnum. Litlaus og flöt smíð sem er of „fullorðins“ fyrir ekki eldri söngkonu.

Þetta er því miður ekki eina dæmið um slíkt feigðarflan. Annað sem setja má út á eru textar, en þeir eru æði misjafnir. Fínar hendingar á stundum („Með kvíðahnút í maganum/Og fiðrildi um leið“) en of oft er verið að spinna á fremur hugmyndasnauðan og máttlausan hátt í kringum einföld orð eins„mig/þig“, „hvað með það/sama stað“, „til þín/mín/“, „fá/sjá/þrá/þá“ o.s.frv. Plötunni er lokað með „Áður en dagur rís“ þar sem Birnir gestasyngur. Hörkusmíð, stórgott popplag sem rígheldur. Þarna njóta þessar þreifingar sem lagt er upp með á plötunni sín í botn. Rétt á undan fengum við hins vegar að heyra „Trúðu mér“, sem er meira í ætt við eldri lögin. Ljúft og dularfullt og endar með skemmtilegum tilraunum. Sömuleiðis þrælvel heppnað, þó af allt öðrum toga sé.

GDRN tekur með þessari plötu hugrökk og í raun bráðnauðsynleg skref fram á við. Endurtekning á síðustu formúlu var greinilega ekki uppi á borðum, sem betur fer. Þessi skref eru þó óneitanlega hikandi líka, og þó að margt sé vel heppnað gera misfellur líka vart við sig. Sálarstemmurnar ganga oft rækilega vel upp, en á köflum er of langt gengið í poppinu og útkoman þá óspennandi miðjumoð. Flippið og hráleikinn í endann á „Trúðu mér“ hefði, svona eftir á að hyggja, að ósekju mátt skjóta upp kolli oftar.

Sjarmi

Sem tónlistarkona er GDRN, nú sem áður, hin frambærilegasta. Sjarmerandi og „púllar“ poppstjörnuáruna með glans. Ég skil vel hvert hún er að fara á þessari plötu, uppleggið er skýrt og þessar aðfinnslur mínar hvað sjálfa framkvæmdina varðar koma frá góðum stað. GDRN er um margt brautryðjandi og fyrirmynd og ég vil að fleiri stúlkur láti skeika að sköpuðu, gefi út, prófi sig áfram og taki pláss.

Tengdar fréttir

Popptónlist

GDRN í Vikunni með Gísla Marteini

Tónlist

Glænýtt lag með GDRN á aðventugleði Rásar 2

Tónlist

GDRN og Auður tóku lagið saman á Tónaflóði

Tónlist

„Ég er hérna svona af og til“