Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Deutsche Bank vill ekki rifja upp CLN söguna

07.03.2017 - 16:55
Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Kaupþing og Deutsche Bank hafa samið um kröfu Kaupþings upp á 500 milljónir evra sem tengist svokölluðu CLN máli. Þýski bankinn er ófús að upplýsa um viðskiptin þarna að baki og vildi ekki svara spurningum Spegilsins um málið.

Samkvæmt heimildum Spegilsins hefur þýski bankinn fallist á að greiða verulegan hluta sem bendir til að staða Deutsche Bank sé ekki sterk í þessu máli.

Kjarni CLN málsins

Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis er sagan af því sem síðar varð að CLN máli saksóknara rakin: að þessi viðskipti voru framkvæmd að tillögu Deutsche Bank sem vissi að Kaupþing fjármagnaði sjálft þessi viðskipti. Sama kom fram í ákæru saksóknara og svo í yfirheyrslum í CLN málinu í desember 2015.

Í stuttu máli: Kaupþing fjármagnaði viðskipti með skuldatryggingar bankans til að lækka skuldatryggingarálag sitt en úti á markaðnum litu þetta út eins og viðskipti óháð bankanum. Þarna var markaðurinn því blekktur.

Skuldatryggingar eru nokkurs konar veðmál

Svona viðskipti eru eins og veðmál. Kaupþing veðjaði fimm hundruð milljónum evra að bankinn starfaði enn eftir visst langan tíma. Einhverjir aðrir tóku mót-veðmálið, að bankinn félli. Deutsche Bank skipulagði viðskiptin sem byggðust á svokölluðum ,,lánshæfistengdum skuldabréfum,” á ensku ,,Credit Link Notes” eða CLN.

CLN viðskiptin gerð til að hafa áhrif á markaðinn

Skuldatryggingamarkaðurinn er ekki jafn bundinn reglum og hlutabréfamarkaðurinn svo þessi viðskipti eru ekki markaðsmisnotkun með sama hætti og markaðsmisnotkun með hlutabréf sem íslenskir bankamenn hafa verið dæmdir fyrir. Í CLN málinu snerist ákæran um sjálfar lánveitingarnar. Hinir ákærðu voru sýknaðir í Héraðsdómi en saksóknari áfrýjaði málinu til Hæstaréttar þar sem það býður dóms.

Þáttur Deutsche Bank í CLN viðskiptunum

En ein hlið þessa máls snýr að þætti Deutsche Bank. Greiðslurnar til Deutsche vegna þessara viðskipta fóru í gegnum tvö aflandsfélög sem síðan fóru í þrot. Skiptastjóri þeirra krafði Deutsche bæði um þessar 500 milljónir og eins um skýringar á hver hefði eiginlega verið tilgangur þessara viðskipta. Í Deutsche var fátt um svör svo skiptastjórinn fór í mál við bankann 2012 í London og fékk þannig aðgang að gögnum.

Saga Deutsche Bank stangast á við gögn

Í þeim málaferlum neitaði fulltrúi Deutsche að bankinn hefði tekið þátt í þessum viðskiptum til að hafa áhrif á markaðinn. Bankinn hefði ekki vitað að Kaupþing sjálft fjármagnaði viðskiptin og Deutsche ekki verið ráðgjafi Kaupþings í þessum viðskiptum. Í árskýrslu þýska bankans 2015 eru þessar kröfur nefndar og jafnframt að bankinn hafni að honum beri skylda til að greiða þær.

Þess má geta að starfsmaður Deutsche sem hélt utan um CLN viðskiptin var síðar sendur í leyfi og svo rekinn. Hann stefndi bankanum vegna ólögmætrar uppsagnar, dómur liggur ekki fyrir. Starfsmaðurinn hefur ekki svarað fyrirspurnum Spegilsins.

Deutsche greiði Kaupþingi og málið fellt niður

Kaupþing stefndi Deutsche Bank bæði í Reykjavík og London til að fá 500 milljónirnar endurgreiddar. Nú hefur hins vegar samist um að þýski bankinn greiði Kaupþingi verulegan hluta þessa fjár gegn því að málið falli niður. Samkvæmt upplýsingum Spegilsins fær Kaupþing þarna rúmlega 400 milljónir evra, dágóðar heimtur.

Úr þeim málalyktum má lesa að Deutsche vill síður rifja upp að já, samkvæmt gögnum CLN málsins er þrennt ljóst: bankinn tók þátt í viðskiptum þar sem starfsmenn bankans vissu að verið var að blekkja markaðinn, þeir lögðu á ráðin og vissu að Kaupþing fjármagnaði viðskiptin.

Deutsche tók þátt í CLN viðskiptunum

Í viðbót kemur fram í CLN ákærunni að Deutsche skipulagði ekki aðeins viðskiptin heldur tók þátt í þeim, var á vinningsenda veðmálsins, græddi því þegar Kaupþing tapaði. Viðmælendur Spegilsins telja að þarna hafi Deutsche mögulega brotið reglur, aðeins mátt vera miðlari en alla vega óeðlilegt að bankinn tók þátt í viðskiptunum.

Talsmaður Deutsche vill ekki svara

Spegillinn hefur borið þessi atriði undir Deutsche, annars vegar að framburður bankans í málinu 2012 stangist á við gögn, framsetningin í ársskýrslunni sé ekki í samræmi við staðreyndir málsins og jafnframt spurt um hlut bankans í sjálfum viðskiptunum.

Svar talsmanns bankans var að samið hefði verið um greiðsluna til Kaupþing og engar frekari upplýsingar veittar. Bankinn sinnti ekki þeirri ábendingu Spegilsins að spurningarnar vörðuðu upplýsingagjöf bankans og ekki bara samninginn við Kaupþing.

Deutsche vantar fé – og gerir upp mál

Deutsche Bank freistar þess nú að afla átta milljarða evra til að bæta eiginfjárstöðuna og hefur samkvæmt fréttum gert upp ýmis mál undanfarið. Ýmsir viðmælendur Spegilsins nefna að Deutsche hafi aldrei tekið á vafasömum gjörningum fyrri ára. Gjörningum sem hafa kostað bankann milljarða evra í sektir og aðrar greiðslur. Nú bætist við greiðslan til Kaupþings.

 

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV
sigrunda's picture
Sigrún Davíðsdóttir