Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Deilt um Suðurnesjalínu 2 í sex ár

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Landsnet leggur til að Suðurnesjalína 2 verði að mestu í lofti en ekki lögð í jörð. Matsskýrsla þess efnis bíður samþykkis hjá Skipulagsstofnun. Framkvæmdir eigi að hefjast að nýju á næsta ári. Deilt hefur verið um lagningu línunnar frá því Landsnet fékk heimild fyrir henni árið 2013.

Línunni ætlað að tryggja raforkuöryggi á Suðurnesjum

Með línunni, sem á að liggja á milli Hafnarfjarðar og Reykjanesbæjar, á að bæta raforkuöryggi á Suðurnesjum, segir í tilkynningu frá Landsneti. Þar segir að Suðurnesin séu „mikilvægt vaxtarsvæði með alþjóðaflugvellinum í Keflavík, ferðaþjónustu, stórum gagnaverum og annarri atvinnustarfsemi og hefur íbúum fjölgað mikið.“ 

Þörfin á nýju línunni sé brýn. „Hluti af þörfinni er möguleiki á stækkun þeirra virkjana sem eru á staðnum. Hluti er öryggið, sem vegur mjög þungt. Eins og staðan er núna er Suðurnesið eingöngu á einni línu. Ef það er truflun í henni veldur það í flestum tilvikum straumleysi á öllum Suðurnesjunum, þar með talið öllum fyrirtækjum og búðum og getur haft áhrif á flugvöllinn,“ segir Sverrir Jan Norðfjörð, framkvæmdastjóri þróunar- og tæknisviðs Landsnets.

Málið á sér langan aðdraganda og ýmislegt hefur gengið á síðan Landsnet fékk heimild fyrir lagningu línunnar.

Mynd með færslu
 Mynd: Marek Ślusarczyk

2013

 • Árið 2013 veitti Orkustofnun Landsneti heimild til að leggja Suðurnesjalínu 2 og sagði að Landsnet skyldi semja við landeigendur um landnot vegna línunnar, ellegar þyrfti að gera eignarnám. 
 • Náttúruverndarsamtök og landeigendur fóru fram á að lögð yrði jarðlína í staðinn fyrir loftlínu, líkt og til stóð. Landsnet taldi ekki þörf á að gera samanburð á loftlínu og jarðstreng. Þá hefur verið greint frá því að það kosti um það bil tvöfalt meira að leggja jarðstreng.

2014

 • Snemma árs 2014 heimilaði þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra Landsneti að taka ákveðnar jarðir á Suðurnesjum eignarnámi. Samningsleið hefði verið reynd til þrautar. Ósáttir landeigendur ákváðu að láta reyna á heimild ráðherra fyrir dómstólum. 

2015

 • Í janúar árið 2015 vísaði Héraðsdómur Reykjavíkur frá máli landeiganda á Vatnsleysuströnd, sem kröfðust þess að umráðaréttur Landsnets yfir eignarnumdu landi þeirra yrði afnuminn. Málinu var vísað til Hæstaréttar sem felldi úr gildi dóm héraðsdóms og vísaði málinu aftur til dómstólsins. Héraðsdómur úrskurðaði þá eignarnámið gilt og í kjölfarið var málinu áfrýjað til Hæstaréttar.
 • Um vorið 2015 mótmæltu tæplega þúsund íbúar á Völlunum í Hafnarfirði fyrirhuguðum framkvæmdum. Loftlínur hefðu verulega neikvæð áhrif á útivist, útsýni og hljóðvist í Vallahverfi og fasteignaverð. Í júlí sömdu Hafnarfjarðarbær og Landsnet um að sá hluti Suðurnesjalínu tvö sem tengist Hamranesi í Hafnarfirði yrði í jörðu.
 • Í júní úrskurðaði Hæstiréttur að Landsneti væri ekki heimilt að hefja framkvæmdir á því landi sem hafði verið tekið eignarnámi á Vatnsleysuströnd.
 • Í sama mánuði var mál landeigenda á Suðurnesjunum, sem vildu fá eignarnámið fellt úr gildi, flutt fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, sem sagði það gilt. Heimilt væri að taka landsréttindi á Reykjanesskaga eignarnámi til að leggja þar raflínu. Suðurnesjalína 2 væri mikilvæg framkvæmd í almannaþágu og þyldi ekki bið. Landeigendur áfrýjuðu til Hæstaréttar og sögðu eignarnámið ganga gegn stjórnarskrá.
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV

2016

 • Í maí 2016 úrskurðaði Hæstiréttur að eignarnám Landsnets á fjórum jörðum á Reykjanesskaga væri ólögmætt. Landeigendur á Vatnsleysuströnd fögnuðu því að Hæstiréttur hefði ógilt eignarnám á jörðum þeirra fyrir háspennulínur í lofti. Þeir kröfðust þess að Landsnet skoðaði ítarlega möguleika á því að leggja raflínurnar í jörð, meðal annars vegna sjónmengunar sem hlytist af loftlínum. Ekki þyrfti að leggja jarðstreng um ósnortið hraun vegna framkvæmdanna.
 • Í júlí árið 2016 felldi Héraðsdómur Reykjaness úr gildi framkvæmdaleyfi sem sveitarfélagið Vogar veitti Landsneti vegna Suðurnesjalínu tvö. Landsnet þyrfti að setja framkvæmdaáætlanir í umhverfismat.
 • Í október 2016 ógilti Hæstiréttur leyfi Orkustofnunar til Landsnets fyrir Suðurnesjalínu 2, og sneri þar með við héraðsdómi frá árinu áður. Stjórnvöld yrðu að vanda til verka þegar tekin væri ákvörðun um eignarnám. Eignaréttur sé varinn í stjórnarskránni. Orkustofnun hefði þurft að upplýsa um málið til hlítar áður en gefin væri heimild fyrir eignarnámi.

2017

 • Í mars árið 2017 voru öll framkvæmdaleyfi við línuna felld úr gildi. Landsnet þótti ekki hafa kannað með fullnægjandi hætti hvort jarðstrengur væri raunhæfur kostur.
 • Í nóvember 2017 ítrekaði bæjarstjórn Reykjanesbæjar mikilvægi Suðurnesjalínu 2. Eldingu sló niður í Suðurneslínu 1 sem olli rafmagnsleysi á svæðinu. Bæjarstjórnin sagði að Suðurnesjalína 1 væri eina tenging Reykjanesskaga við flutningskerfi Landsnets. Þá ylli álag frekari hættu á truflunum sem gætu valdið tjóni hjá notendum. Því væri brýnt hagsmunamál íbúa og atvinnulífs á Reykjanesskaga að lína 2 yrði lögð sem fyrst.
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

2018

 • Í febrúar í fyrra var greint frá því að búið væri að kynna drög að matsáætlun vegna Suðurnesjalínu 2 og athugasemdafresti væri lokið. Unnið væri úr ábendingum. Ekki væri hægt að tryggja afhendingaröryggi þegar truflun eða bilun yrði þar sem að ein lína liggi frá Hafnarfirði til Suðurnesja.

2019

 • Á föstudag kom fram að Landsnet leggi til að Suðurnesjalína 2 verði að mestu í lofti en ekki lögð í jörð. Í matsskýrslu, sem nú bíður samþykkis hjá Skipulagsstofnun, segir að það sé hagkvæmara og umhverfisvænna. Aðrir valkostir hafi verið kannaðir gaumgæfilega. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist að nýju á næsta ári.
 • Eftir að samþykki Skipulagsstofnunar liggi fyrir taki við áframhaldandi viðræður við landeigendur og sótt verði um framkvæmdaleyfi á ný.  
 • Sverrir Jan Norðfjörð, framkvæmdastjóri þróunar- og tæknisviðs Landsnets, sagði í samtali við fréttastofu, að þegar hafi verið samið við flesta landeigendur um loftlínu. Of snemmt sé að segja til um hvort reyni á eignarnám, sem sé allra síðasta úrræðið og viðkvæmt mál, síðar meir, takist ekki samningar við þá sem eftir eru.