Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Deilihagkerfi fínt nafn yfir skattsvik“

13.10.2019 - 12:34
Mynd: RÚV / RÚV
Deilihagkerfi er í grundvallaratriðum fínt orð yfir skattsvik, segir þingmaður Miðflokksins, sem líst illa á að farveitum eins og uber verði leyft að starfa hér á landi. Þingmaður Sjálfstæðisflokksins telur að enginn vafi sé á því að slíkar farveitur komi til landsins.

Hér má horfa á allan þáttinn. 

Samgönguráðherra hefur sagt að frumvarp sé í bígerð um að leyfa farveitur hér á landi í vetur. Leigubílastöðvar hafa haft einkaleyfi á akstri leigubíla hér á landi.

Þorsteini Sæmundssyni, þingmanni Miðflokksins, hugnast ekki að leyfa slíka þjónustu hér á landi. Hann segist vilja vera viss um að þegar hann pantar leigubíl að bílstjórinn sé með allar tryggingar og réttindi í lagi og ekki á sakaskrá. Hann segist ekki vera sammála þeim sem dásama deilihagkerfið.  

„Ég er gamall innheimtumaður ríkissjóðs og mér finnst deilihagkerfi í grundvallaratriðum fínt nafn yfir skattsvik,“ sagði hann í Silfrinu í hádeginu. Hann segir að menn hafi sett þetta í samhengi við Airbnb og sá samanburður sé farveitum ekki í hag. Um það bil þriðjungur Airbnb sé skráður sem þýði að þriðjungur þeirra borgi skatta. Þá segir hann að Svíar og Finnar hafi slæma reynslu af Uber en betur hafi gengið í Danmörku, þar hafi ýmis skilyrði verið sett.  

Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segist hafa góða reynslu af uber erlendis. „Ég held að það sé engin spurning um það að þetta kemur hingað og þetta kerfi sem er búið að byggja í kringum þetta hefur þvílíka yfirburði yfir það sem við þekkjum.“

Það þurfi með einhverjum hætti að huga að áhrifum farveitna á starfsemi leigubílastöðva hér á landi. Hægt sé að setja allskonar skilyrði um bílana, bílstjórana og hverjir fái að fara inn í kerfið. Ekki sé spurning um hvort þetta komi hingað heldur undir hvaða formerkjum. 

Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að þetta sé tækni sem sé orðin útbreidd víða um lönd. „Og hún er komin til að vera og við getum ekki þverskallast við það hér á Íslandi og þessi tækni mun koma hingað og þá varðar öllu hvernig hún er innleidd.“

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, telur að það sé óhjákvæmileg þróun að farveitur á borð við úber komi til landsins. „Þannig að það er eins gott að í stað þess að vera alltaf að reyna að stoppa einhverjar framfarir, að reyna að undibúa okkur.“

Hægt er að horfa á hluta Silfursins þar sem fjallað var um farveitur í spilaranum hér fyrir ofan. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV