Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Deila sjálfsvígsráðum og sjálfsskaðamyndum á Instagram

22.02.2020 - 19:15
Mynd: DR / DR
Í það minnsta þúsund ungir Danir taka þátt í leynilegu neti á samskiptaforritinu Instagram þar sem þau birta myndir af sjálfsskaða og deila ráðleggingum um sjálfsvíg. Mörg dæmi eru um að ungmenni í slíkum hópum svipti sig lífi.

Fann læsta Instagram-síðu dótturinnar

Maja Luna Lass var tvítug að aldri þegar hún svipti sig lífi í fyrra. Hún hafði glímt við þunglyndi og átröskun.

Móðir Maju, Betina Lindegaard, uppgötvaði eftir dauða hennar af Maja hélt úti læstri Instagram-síðu. Þar tilheyrði hún einskonar hópi eða neti þar sem ungmenni, sér í lagi ungar konur á aldrinum 15-29 ára, deila myndum og efni um geðræn vandamál, sjálfsskaða, vanlíðan og sjálfsvíg.

Mörg ungmennanna eiga við alvarleg geðræn vandamál að stríða og hafa verið vistuð á geðdeildum. 

Mynd með færslu
 Mynd: DR
Myndskreyting DR með efni af Instagram-síðu Maju.

Þúsund ungir Danir tengjast sjálfsskaðaneti

Danska ríkisútvarpið DR hefur fjallað ítarlega um dauða Maju og þennan heim á vef sínum og í nýrri heimildamynd, Døde pigers dagbog. Í gegnum Instagram-síðu Maju Lunu fundu fréttamenn DR net um 1000 annarra ungra Dana sem saman höfðu birt um 100 þúsund innlegg, flest þeirra um sjálfsskaða.

Þetta er ekki sérdanskt fyrirbæri. NRK í Noregur hefur, til að mynda, líka fjallað nýverið um svipuð net norskra ungmenna á Instagram. Síðurnar eru lokaðar öðrum en þeim sem tilheyra hópnum, ungmennum í svipuðum hugleiðingum.

Í gegnum Instagram birta þau myndir af sjálfsskaða, deila ráðleggingum um aðferðir til sjálfsvígs og upphefja félaga sína sem hafa svipt sig lífi.

Mynd með færslu
 Mynd: DR

Hætta á fleiri sjálfsvígum

Lotte Rubæk, sálfræðingur og sérfræðingur í sjálfsskaða ungmenna, segir við DR að þó að þetta net eigi mögulega að vera í stuðningsskyni í augum ungmennanna geti það reynst mjög hættulegt.

Hættan sé meðal annars að ungmenni sem komist í kynni við  þennan heim fari að skaða sig oftar og hugsa meira um sjálfsvíg en ella. Einnig sé hætta á að svipti einhver í hópnum sig lífi fylgi önnur ungmenni eftir. Samkvæmt heimildum DR hafa sjö ungmenni í danska hópnum svipt sig lífi, þar á meðal Maja Luna. 

Reglur Instagram banna efni sem sýnir sjálfsskaða eða sjálfsvíg. Í heimildamynd DR er meðal annars rætt við Martin Ruby, hjá Facebook á Norðurlöndum, en Facebook er eigandi Instagram. Hann segir að fyrirtækið reyni að uppræta slíkt efni en erfitt sé að þefa uppi allt. Frekari vinnu sé þörf í þessum málum. 

Glímir þú við sjálfsvígshugsanir? Ræddu málin við sérþjálfaða ráðgjafa Rauða krossins í hjálparsímanum, 1717, eða á netspjalli Rauða krossins.

verai's picture
Vera Illugadóttir
dagskrárgerðarmaður