Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Davíð Oddsson ber vitni

06.03.2012 - 14:40
Mynd með færslu
 Mynd:
Davíð Oddsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, settist í vitnastúku í landsdómi laust fyrir klukkan hálf þrjú. Helgi Magnús Gunnarsson, varasaksóknari Alþingis, tilkynnti Davíð að hann myndi bera fram spurningar fyrir hönd saksóknara.

Helgi byrjaði á að biðja Davíð að svara almennum spurningum um málið. Davíð var spurður hver helsta ástæðan væri fyrir bankahruninu. Davíð sagði að bankarnir hefðu með innri starfsemi sinnar og útvíkkun starfseminnar komið sér fram á ystu nöf í sínum rekstri. Hann sagði að þeir hefðu mögulega getað lifað af lengi. Hins vegar hafi orðið afturkippur á miðju árið 2007. Þá hafi verið alger umskipti á alþjóðlegum mörkuðum og aðgangur að lánsfé minnkað. Þegar þetta hafi farið saman hafi farið sem fór.

Davíð sagði að athugasemdir sínar um bankakerfið hefðu byrjað mun fyrr en árið 2008. Því til staðfestingar vísaði hann til fundar með Lárusi Welding, þá nýráðnum bankastjóra Glitnis, árið 2007, þar sem hann hefði gert athugasemdir um starfsemi bankans.