Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Davíð lýsir ástæðum hrunsins

06.03.2012 - 15:06
Mynd með færslu
 Mynd:
Davíð Oddsson, fyrrverandi Seðlabankastjóri, hefur frá því laust fyrir klukkan hálf þrjú borið vitni fyrir landsdómi í Þjóðmenningarhúsinu í Reykjavík.

Davíð hefur meðal annars sagt að alls staðar í heiminum, ekki bara á Íslandi, hafi menn, þrátt fyrir þá svörtu sýn á bönkunum sem menn hafi haft í Seðlabankanum, alltaf gengið út frá því að menn gerðu ekkert sjálfir sem yrði til þess að hrinda af stað dauðadansinum. Enginn hafi séð fyrir lánsfjárkreppuna árið 2008. Menn hafi skyndilega séð að undirmálslán í Bandaríkjunum væru botnlaus og undirmálskrísan hafi orðið til þess að skapa gríðarlegt vantraust milli banka. Davíð eyddi nokkrum tíma í að lýsa aðdraganda og ástæðum bankahrunsins á þennan veg.

Markús Sigurbjörnsson, forseti landsdóms, bað saksóknara í miðjum vitnisburðinum um að bera upp markvissar spurningar svo svörin gætu verið í samræmi við það.

Davíð sagðist einnig í vitnisburðinum hafa talað um áhyggjur sínar af íslenska bankakerfinu við Geir H. Haarde og aðra ráðherra. Það sé staðfest í rannsóknarskýrslu Alþingis og jafnvel í bókum. Hann nefndi bók Árna M. Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra, sem kom út árið 2010. 

Davíð sagði ennfremur að þrátt fyrir að menn hefðu haft áhyggjur af lausafjárstöðu Glitnis í janúar 2008 hefði það ekki endilega þýtt að bankinn væri á leiðinni í þrot. Ýmis úrræði hafi verið til staðar.