Dauflegt í París á þriðja degi jóla

27.12.2019 - 16:46
Commuters ride a scooter during the 23rd day of transport strikes in Paris, Friday, Dec. 27, 2019. French union activists are disrupting two of the country's eight oil refineries as part of nationwide strikes against a higher retirement age that have lasted for 23 days, the longest such walkout in decades. (AP Photo/Francois Mori)
 Mynd: AP
Philippe Martinez, aðalstjórnandi CGT stéttarfélagsins í Frakklandi, segir að verkföllum verði haldið áfram þar til stjórnvöld hætti við fyrirætlanir sínar um að sameina allar 42 eftirlaunaleiðir sem nú eru í boði í eitt allsherjar lífeyriskerfi fyrir alla. Dauflegt var í miðborg Parísar í dag þrátt fyrir að útsölur séu byrjaðar í verslunum.

Aðgerðir starfsfólks járnbrauta, jarðlesta og almenningsvagna hafa staðið í 23 daga og kostað frönsku járnbrautirnar tugi milljarða króna. Verkfallið er þar með orðið degi lengra en frægar aðgerðir árið 1995, þegar mótmælt var áformum Jacques Chiracs, þáverandi forseta, um niðurskurð í velferðarkerfinu. Lengsta samgönguverkfall í Frakklandi stóð í 28 daga yfir jólin 1986 og fram í janúar '87.

Philippe Martinez sagði í dag á fundi með með félagsmönnum CGT félagsins að almenningur styddi mótmæli þeirra. Verkfallið hafði mikil áhrif á jólahald Frakka og útlit er fyrir hið sama um áramótin. Samkvæmt venju ætti að vera iðandi mannlíf í París í dag, á þriðja degi jóla, þegar fólk fer á útsölur í verslunum og undirbýr áramótin. Sú er ekki raunin, að sögn fréttamanns AFP. Alls óvíst er hvenær aðgerðum lýkur. Næsti fundur stjórnvalda og fulltrúa CGT er áformaður sjöunda janúar.