Dauðsfall rakið til lungnabólguveirunnar í Kína

11.01.2020 - 09:02
Mynd með færslu
 Mynd: Pexels
Kínverjar tilkynntu í dag að rekja megi dauðsfall 61 árs karlmanns þar í landi til óþekktrar lungnabólguveiru sem kom fyrst upp í byrjun árs. Talið er að allt að 50 manns í kínversku borginni Wuhan hafa sýkst af veirunni það sem af er ári en óttast er að veiran sé af sama meiði og svonefnd alvarleg bráð lungnabólga sem dró meira en 700 manns víða um heim til dauða á árunum 2002-2004. 

Að mati vísindamanna er of snemmt að fullyrða hvort veiran sé af sama stofni og alvarleg bráð lungnabólga. Í síðustu viku sendu kínverskir vísindamenn frá sér tilkynningu og sögðust telja að vírusinn væri áður óþekkt afbrigði kórónaveirunnar, sem er einn af þekktum orsakavöldum kvefs en einnig má rekja alvarlegri sjúkdóma, á borð við alvarlega bráða lungnabólgu, til veirunnar. 

Maðurinn, sem lést á fimmtudag, hafði keypt sjávarfang af fiskmarkaði í borginni en nokkrir hinna smituðu unnu á fiskmarkaði í borginni. Markaðnum var lokað í byrjun árs eftir að veiran greindist. Einhverjir þeirra sem veiktust eru á batavegi en sjö manns eru enn alvarlega veikir. Í tilkynningu frá heilbrigðisnefnd Wuhan-borgar kemur fram að engin ný tilfelli hafi greinst síðan 3. janúar. 

AFP hefur eftir talsmanni Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar að stofnunin mælir ekki með því að ferðalangar geri sérstakar ráðstafanir að svo stöddu og að stofnunin hafi fulla trú á því að kínverskum yfirvöldum takist að hemja útbreiðslu veirunnar.