Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Datt ekki í hug að ríkið myndi hafna bótakröfu

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Lögmaður Guðjóns Skarphéðinssonar, einn þeirra sem var sýknaður í Guðmundar- og Geirfinnsmálum, furðar sig á því að ríkið hafi hafnað öllum bótakröfum Guðjóns. Lögmaður Guðjóns segir hann eiga skilyrðislausan bótarétt. Guðjón stefndi ríkinu í júní og krafðist bóta upp á 1,3 milljarða króna eftir að sáttaviðræður við ríkið sigldu í strand. Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Guðjóns, segir að honum hafi ekki dottið í hug að ríkið myndi hafna bótakröfunni.

Fréttablaðið greinir frá því að ríkið hafi hafnað bótakröfunum og krefjist fullrar sýknu og greiðslu málskostnaðar af hálfu Guðjóns. 

„Það er nú frekar óvænt að ríkisstjórnin skyldi taka þá afstöðu í málinu eftir að hafa viðurkennt stórfelld mistök kerfisins með því að svipta þetta fólk frelsi árum saman að það skuli ekki ætla að bera neina ábyrgð og traðka á réttindum þess,“ segir Ragnar.

Þýðir þetta að Guðjón fær engar bætur eða hvað þýðir þetta?

„Þetta þýðir að ríkið ætlar að berjast upp á líf og dauða gegn öllum bótakröfum fyrir dómstólum,“ segir Ragnar.

Kom þetta þér á óvart?

„Að sjálfsögðu gerði það það. Það leikur enginn vafi á því að þetta fólk var svipt frelsi og það var síðan sýknað í Hæstarétti. Það á skilyrðislausan bótarétt bæði samkvæmt almennum lögum og stjórnarskrá. Mér datt ekki í hug að ríkið færi að reyna að berjast gegn réttarríkinu í þessu máli,“ segir Ragnar.

Telur þú þetta gefi einhverja vísbendingu um hvernig mál annarra í Guðmundar- og Geirfinnsmálum muni fara?

„Já, samkvæmt jafnræðisreglu mun ríkið berjast gegn öllum bótakröfum. Það getur ekki mismunað mönnum,“ segir Ragnar.

Mynd: RÚV / RÚV

Ragnar ræddi einnig við Morgunútvarpið á Rás 2 í morgun og þar sagði hann að svo virtist sem ríkið líti svo í þessu máli að dómurinn frá 1980 stæðist og sýknudómurinn frá því fyrra skipti litlu máli.  

„Umboðsmaður Alþingis hefur orðið að veita þeim sem flytja mál fyrir ríkið miklar ákúrur vegna þess að þeir misskilja hlutverk sitt og halda að þeir eigi að verjast borgurunum upp á líf og dauða í öllum málum,“ segir Ragnar. Þetta sé misskilningur vegna þess að þeiri eigi að verja réttindi borgaranna. 

„Þarna er tekin þessi grimma afstaða að við skulum gera allt sem við getum til þess að koma í veg fyrir að þeir sem hafa valdið tjóni fái það bætt. Þetta er gert með slíkum ótrúlegumleikfimisæfingum. Reynt að vitna í fyrningareglur frá 1974. Ekkert tillit tekið til ákvæða í stjórnarskrá um rétt manna til bóta og ekki heldur til Mannréttindasáttmála Evrópu um rétt til bóta,“ segir Ragnar.

„Hver skyldi hafa hringt í dómarann?“

„Ég er að flytja mál fyrir dómstólum. Dómstólar eru hluti af ríkisvaldinu. Það er spurning hvort ríkisstjórnin hafi hugsað sér að reyna að hafa þau áhrif á dómstólana að kröfur þessara manna nái ekki fram að ganga. Ég vona að ég þurfi ekki að hugsa þannig þegar ég fer og flyt málið: Hver skyldi hafa hringt í dómarann í gærkvöldi,“ sagði Ragnar í viðtali við Morgunútvarpið.