„Daprasta tímabilið á mínum þingferli“

28.03.2013 - 12:14
Mynd með færslu
 Mynd:
Það leysti hnútinn að sum mál stjórnarinnar voru lögð til hliðar og önnur lagfærð segir, Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, um samkomulag um þinglok í nótt. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir síðustu mánuði þá dapurlegustu á sínum þingferli.

Nýtt breytingarákvæði stjórnarskrárinnar var síðasta lagafrumvarpið til að verða afgreitt áður en þingi var slitið klukkan fjórar mínútur í tvö í nótt. Þá hafði mikið gengið á um daginn og fram á kvöld, þingmenn stungu saman nefjum í flestum skúmaskotum Alþingis og áhersla var lögð á að ná samkomulagi um þinglok fyrir páska.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingar, sagði í samtali við fréttastofu í gærkvöld að með samkomulagi um þinglok hafi náðst utan um útistandandi mál. „Við vildum leggja allt kapp á að ná alvöru lögum um náttúruvernd, sem er að takast. Sama er um uppbyggingu Landspítala, sem er mikið þjóðþrifamál og skiptir miklu máli, og Bakki. Allt voru þetta mál sem þurfti að hnýta hnúta í á einstöku stöðum og það tókst.“

 

Tímabundið breytingarákvæði
Samkomulagið um nýtt breytingarákvæði stjórnarskrárinnar er tímabundið. Næstu fjögur árin verður hægt að breyta stjórnarskrá án þess að þingkosningar þurfi til. Á móti kemur að í stað einfalds meirihluta þingmanna þurfa tveir af hverjum þremur þingmönnum sem greiða atkvæði* að samþykkja breytingar á stjórnarskrá. Síðan þarf meirihluti í þjóðaratkvæðagreiðslu að styðja breytingarnar, en aldrei færri en 40 prósent þeirra sem eru á kjörskrá. Þessi leið til að breyta stjórnarskrá fellur sjálfkrafa úr gildi 1. maí 2017.

 

Sumt lagt til hliðar og annað lagfært
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að lausn hafi náðst í gærkvöld sem hafi orðið til þess að samkomulag náðist um þinglok. „Það var ákveðið að leggja sum mál stjórnarinnar til hliðar og svo voru önnur lagfærð eins og þurfti að gera. Sum málanna sem var verið að leggja áherslu á voru ekki nægjanlega ígrunduð.“

Bjarni segir að stjórnarskrármálið hafi verið stærsta einstaka málið. Til dæmis hafi komið fram tvær eða þrjár tillögur um þjóðareign á auðlindum síðasta mánuðinn. „Sem sýnir hversu illa kjörtímabilið hefur verið nýtt til að ná breiðri samstöðu um slíkt ákvæði.“
Nýtt breytingaákvæði bætist við hlið þess sem nú þegar sé í gildi og sé því viðbót, að því gefnu að það verði samþykkt á næsta þingi segir Bjarni.

 

Jóhanna greiddi ekki atkvæði
Athygli vakti að forsætisráðherra greiddi ekki atkvæði um frumvarp formanna Samfylkingar, Vinstri-grænna og Bjartrar framtíðar um nýtt

„Ég bara tek þessari atkvæðagreiðslu eins og hún er. Hér eru allir frjálsir að sínu atkvæði,“ segir Árni Páll og segist ánægður með að tillagan hafi fengið stuðning úr flestum flokkum. 25 greiddu atkvæði með tillögunni, eða tæp 40 prósent þingmanna, og 21 sat hjá.

 

Daprasta tímabilið
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra átti síðasta orðið á Alþingi þetta kjörtímabilið, sem voru hennar síðustu á Alþingi, enda lætur hún nú af störfum eftir nærri 35 ára þingsetu. „Og oft hefur umræðan í þingsölum verið óvægin, einkum hin síðustu ár. Kannski óvægnari og hatrammari en oft áður. Af þeim sökum hafa síðustu vikur mínar verið daprasta tímabilið á mínum þingferli.“

Jóhanna sagði mikilvægt að breyta störfum Alþingis til samræmis við þing á Norðurlöndum, meðal annars með því að koma í veg fyrir að hægt væri að tefja endalaust framgang frumvarpa sem lýðræðislega kjörin stjórnvöld legðu fram.

*Leiðrétting 29. mars: Ranglega var sagt í upprunalegri gerð fréttarinnar að 42 þingmenn þyrftu að samþykkja breytingar á stjórnarskrá samkvæmt nýja ákvæðinu. Hið rétta er að tveir af hverjum þremur þingmönnum sem greiða atkvæði um slíka tillögu þurfa að styðja hana.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi