Danskur lektor vill ekki skila fleiri handritum

11.11.2019 - 08:04
Mynd með færslu
Rúnar Leifsson, sérfræðingur í menntamálaráðuneytinu, Gottskálk Jensson, lektor í handritafræðum, Lilja Alfreðsdóttir og Páll Magnússon skoða handrit frá 12. öld. Mynd: Aðsend mynd
Lektor við háskólann í Kaupmannahöfn er ekki hrifinn af hugmynd Lilju Alfreðsdóttur, menntamálaráðherra, um að Danir láti Íslendinga hafa fleiri handrit úr handritasafni Árna Magnússonar. Handritin séu hluti af sögu Danmerkur og þar megi meðal annars lesa um danska kónga eins og Harald Blátönn og Knút VI.

Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, hefur lýst yfir áhuga á að Íslendingar endurheimti hluta þeirra handrita sem eru í Danmörku. Á fundi með menntamálaráðherra Danmerkur í september síðastliðnum var ákveðið að stofna samráðsnefnd um sameiginleg menningarverðmæti þjóðanna.

Hugmyndin hefur fengið blendnar viðtökur. Viðar Pálsson, dósent í sagnfræði við Háskóla Íslands, sagði til að mynda í samtali við fréttastofu í september að óljóst væri hver ávinningurinn yrði af því að Íslendingar fengju handritin. Hugsanlega væri verið að tefla vísindastarfi á sviði forníslenskra og norrænna fræða í hættu með því að vekja upp málið.

Um 700 íslensk handrit eru varðveitt hjá háskólanum í Kaupmannahöfn og Anne Mette Hansen, lektor í norrænum fræðum, segir að þau eigi að vera áfram í Danmörku.  Þau séu hluti af danskri sögu.  Hansen segir ekki vitað hvaða handrit það séu sem íslensk stjórnvöld vilji fá.

Hún segir að það komi þó til greina að Íslendingar fái lánuð handrit þegar Hús íslenskra fræða verður tilbúið. „Það gæti verið viðeigandi,“ hefur danska blaðið BT eftir Hansen. „En ekki öll handritin.“

Lilja tók málið upp á fundi ríkisstjórnarinnar í síðasta mánuði þar sem ákveðið var að skipa samráðshóp til að mæla árangurinn af handritasamningnum. „Ég hef verið mjög skýr í því að við viljum fá fleiri handrit heim,“ sagði ráðherrann í viðtali við RÚV.  Fram hefur komið að íslensk stjórnvöld hafi áhyggjur af handritunum í Danmörku því fræðimönnum sem rannsaki þau hafi fækkað umtalsvert.