Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Damon Albarn vill fá íslenskan ríkisborgararétt

Mynd með færslu
 Mynd: Páll Magnússon - Aðsend mynd

Damon Albarn vill fá íslenskan ríkisborgararétt

11.03.2020 - 16:29

Höfundar

Breski tónlistarmaðurinn Damon Albarn hefur áhuga á því að fá íslenskan ríkisborgararétt. Albarn heimsótti Alþingi í dag, en það var Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjar- og menntamálanefndar, sem tók á móti Albarn.

Páll segir að Albarn sé áhugasamur um Ísland, en hann hefur verið með annan fótinn hér á landi í hátt í aldarfjórðung og á meðal annars fasteign í Grafarvogi. Páll segir að Albarn hafi lýst áhuga sínum á að gerast íslenskur ríkisborgari, og að hann hafi spurt hvert ferlið væri. Páll segist gera ráð fyrir því að Albarn skili umsókn til Útlendingastofnunar, en að hann sé áhugasamur um hvaða aðkomu Alþingi hafi að slíku ferli. Páll segir að íslenskir vinir Albarns hafi haft milligöngu um heimsóknina á Alþingi, og að þeir hafi óskað eftir því við sig að hann tæki á móti tónlistarmanninum.

Albarn hefur dvalið á Íslandi að undanförnu við æfingar á nýju tónverki sem til stendur að flytja í Eldborgarsal Hörpu í sumar. Verkið er samið um Ísland og er innblásið af útsýni frá húsi hans í Grafarvogi.

Albarn er einn þekktasti tónlistarmaður Bretlands, en hann er forsprakki hljómsveitanna Blur og Gorillaz.

Aðspurður segir Páll að heimsókn Albarns sé ekki brot á reglum sem settar hafa verið á Alþingi í tengslum við kórónaveiruna. Vissulega sé búið að banna heimsóknir hópa í Alþingishúsið, en að ekki sé búið að taka fyrir allar gestakomur þótt vissulega hafi verið mælst til þess að þær séu takmarkaðar.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Ást Damons Albarns á Íslandi springur út í tónverki

Tónlist

Blur með sína fyrstu plötu í þrettán ár