Dáleiðandi kvöldstund með Dansflokknum

Mynd: Íslenski dansflokkurinn / Íslenski dansflokkurinn

Dáleiðandi kvöldstund með Dansflokknum

29.09.2019 - 11:00

Höfundar

Að mati gagnrýnanda Víðsjár er danssýningin Þel verk sem hrífur og sogar mann inn. Það er opið fyrir alls kyns túlkunum og afar órætt, en engu að síður dáleiðandi kvöldstund.

Snæbjörn Brynjarsson skrifar:

Titill verksins dregur upp hugrenningartengsl við orð eins og vinaþel, hjartaþel, næturþel, þel er samkvæmt Snörunni minni grunnur, undirlag, eins og til dæmis í saumi, eða fíngerð mjúk ull nærri húðinni og ég held kæri hlustandi að sú tilfinning ef þú ímyndar þér fíngert, næfurþunnt lag af ull upp við húðina þá kemstu ansi nærri þeim tilfinningum sem ég fékk á síðustu frumsýningu íslenska dansflokksins síðasta föstudag. Hlýleg og mjúk, yfirleitt þægileg, en á köflum ertandi og stingandi eins og ullin getur verið þegar ekkert á milli þín og hennar.

Þel er nýjasta verk Katrínar Gunnarsdóttur, sem ég held að ég móðgi engan með því að segja að er einn dugmesti og mikilvægasti danshöfundur á Íslandi í dag, og verkið sver sig að mörgu leyti í ætt við önnur verk hennar eins og Kviku og Saving History. Leikmynd og búningar eru unnir af Evu Signý Berger og eru allir mjög stílhreinir, í upphafi verks er einmitt, þel, þunnt lag efnis milli áhorfenda og dansflokksins þannig að dansararnir verða eins og skuggamyndir handan við tjald, en þegar það er dregið frá koma í ljós örlítið fleiri litatónar sem þó eru allir mjúkir pastellitir bæði tjöldin fyrir aftan danshópinn og búningarnir sem dansararnir klæðast. Ljósahönnunin er í höndum Kjartans Þórissonar sem varpar yfir þennan gula og bleika heim á köflum skæru sólarljósi sem danshópurinn fellur niður agndofa og tilbiður, og á köflum daufri birtu eða nánast myrkri. Tónlistin sem sveiflast frá því að vera engin, yfir í að vera draugalega ambíent, yfir í næstum því dansvænt teknó er eftir Baldvin Þór Magnússon og svo eru á sviði sjö dansarar, sem ég tel upp aðeins síðar.

Hljóðmyndin gæti verið betri

Fyrst ég hef nefnt nærri alla er best að ljúka því og nefna Alexander Roberts og Ásgerði Gunnarsdóttur sem veita Katrínu dramatúrgíska ráðgjöf. Eins og oft áður, ef mér skjátlast ekki. Ég nefndi áðan hlýja, mjúka, þægilega ull sem getur ert mann og stungið. Ég ætla að byrja á því að nefna það sem ertir og stingur. Veikasti hlekkur sýningarinnar er hljóðmyndin. Fátt er auðvitað huglægara en tónlist, getur verið smekksatriði eins gagnrýnanda, en þó það sé hugrakkt að byrja verkið í þögn og að óþægindin sem fylgi því geti gert það sem eftir kemur enn kraftmeira þá þótti mér í fyrstu það vera óþarfa áhætta, og hugsaði með mér að smá hljóðmynd undir myndi styrkja innkomu dansarana. Það er að segja þar til tónlistin byrjaði, því þá skildi ég ákvörðunina ágætlega, því mér fannst hún ekki bæta miklu við. Markmiðið var augljóslega að hún væri ekki áberandi og ætti frekar þátt í að móta stemninguna og það getur vel verið að það virki fyrir marga, fyrir minn smekk var hún full tölvuleikjaleg. En eins og ég sagði þá er þetta huglægt mat og ekki ástæða til að dæma sýninguna í heild út frá.

Þel eins og ég nefndi áður skapar hugrenningatengsl við orð eins og vinaþel og svo virðist sem það séu þessar mannlegu tengingar og þræðirnir milli einstaklinga og hópsins séu það sem er Katrínu efst í huga, ekki ullarþræðirnir. Hópurinn dansar saman í heild og dansarnir virðast hafa orðið til á mjög lífrænan máta. Flæðið milli, Ernesto, Elínar, Shota, Sigurðar, Höllu, Unu og Ernu er mjög sterkt. Það kemur fram í senunum þar sem dansa í pörum, það kemur fram í senum þar sem hópurinn í heild syndir um eins og torfa á sviðinu. Öll atriðin voru vel heppnuð og dansinn dró mann inn án þess að maður upplifði að það væri einn fastur fókuspunktur á hverjum stað. Eini gallinn sem ég kom auga á voru skörp skilin milli dansanna sem brutu upp flæðið, sem mér fannst óþarflega skörp í verki sem er jafn hægfara og flæðandi. Það er eitthvað sem eiginlega ekki er hægt að áfellast danshöfund fyrir sem er niðursokkinn í dansana, heldur eitthvað sem verður ljóst þegar heildarmynd er að komast á verk og utanaðkomandi aðilar sem koma inn á æfingar seinna í ferlina gætu spottað.

Nýaldarsöfnuður í gegnum instagram-filter

Að lokum langar mig þó að ausa lofi á samheldni danshópsins og fallega sviðsmyndina. Í byrjun þegar sviðið var bakvið gagnsæja hulu og danshópurinn steig fyrst fram í þögninni, leið manni eins og hér væru afturgöngur að stíga á svið, áhöfn á nítjándu aldar kaupskipi sem strandað hefði og nú væru þessar afturgöngur sem þekktu hvort annað vel eftir hundrað ára reimleika að endurtaka látlausar og einfaldar athafnir í sameiningu. Eftir að tjaldið féll og skærir bleiku og gulu litirnir í búningunum komu í ljós minntu þau meira á nýaldarsöfnuð sem var að mestu búin að afmá helstu persónueinkenni og dönsuðu í hring. Hulan sem var fyrir í byrjun myndaði fallegan instagramfilter sem hefði vel mátt þekja alla sýninguna mín vegna því hún gerði allar hreyfingar mýkri og skuggana fallegri. Hins vegar þegar tjaldið var komið frá fengu skæru litirnir að njóta sín betur í bjartri hliðarlýsingunni án þess þó að rjúfa dulúðina.

Engin dansaranna er meira áberandi enn annar í þessari sýningu og það er einn af helstu styrkleikum hennar. Að því sögðu þá þýðir það ekki að allir dansararnir séu með sömu hreyfingarnar. Alls ekki. Allt í verkinu byggir á viðkvæmu samspili þar sem hver dansari hefur sína eigin hreyfisögu.

Í heildina litið er hér um að ræða verk sem hrífur og sogar mann inn. Þel líkt og orðið er loðið og margbreytilegt, opið fyrir alls kyns túlkunum og afar órætt, en þetta er dáleiðandi kvöldstund, notalegt næturþel sem dregur fram marga af styrkleikum dansflokksins sem heildar og markar ágætt upphaf fyrir hann í byrjun leikárs.

Tengdar fréttir

Dans

Þegar maður vill nánast komast inn í fólk

Dans

Dansarar syngja sína sögu

Menningarefni

Dansarar hefja upp raust sína

Dans

Íslenski dansflokkurinn sló í gegn í London