Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Dagur íslenskrar tungu haldinn hátíðlegur í dag

Mynd með færslu
Dagur íslenskrar tungu er haldinn hátíðlegur á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar Mynd: RÚV

Dagur íslenskrar tungu haldinn hátíðlegur í dag

16.11.2019 - 09:20

Höfundar

Dagur íslenskrar tungu er haldinn hátíðlegur í dag, 16. nóvember, á fæðingardegi þjóðskáldsins Jónasar Hallgrímssonar. Þetta er í 24. skipti sem haldið er upp á daginn.

Dagur íslenskrar tungu er helgaður rækt við íslenskuna. „Með því móti beinist athygli þjóðarinnar að stöðu tungunnar, gildi hennar fyrir þjóðarvitund og alla menningu,“ segir á vef stjórnarráðsins.

Menntamálaráðuneytið og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum standa fyrir hátíðardagskrá sem er opin öllum, í Gamla bíó í Reykjavík. Húsið verður opnað klukkan þrjú og dagskráin hefst hálffjögur og stendur í um klukkustund. Þar verða veitt verðlaun Jónasar Hallgrímssonar, auk viðurkenningar dags íslenskrar tungu.

Tónlistarmenn koma fram og myndbandsverkið Mósaík íslenskunnar, þar sem 80 manns bera fram sjaldgæf orð, verður frumsýnt. Klukkan fimm verður svo sýnt orðlistaverk á glerhjúpi Hörpu.

Ýmislegt annað er á dagskrá. Fyrir hádegi, milli klukkan tíu og ellefu stendur Kvæðamannafélagið Iðunn fyrir kvæðastund í heita pottinum í Vesturbæjarlaug í Reykjavík.

Klukkan tólf til tvö verður dagskrá undir yfirskriftinni Pönk og ljóð í Bókasafni Hafnarfjarðar.

Milli klukkan þrjú og sex stendur Mímir, félag stúdenta í íslensku, almennum málvísindum og táknmálsfræði við Háskóla Íslands, fyrir dagskrá í Árnagarði í Háskólanum.

Klukkan hálfsex til hálfníu verður svo dagskrá í Iðnó í Reykjavík undir yfirskriftinni Nýskapandi mál á degi íslenskrar tungu, sem Almannarómur, Ríkisútvarpið og fleiri standa fyrir. Þar verður meðal annars kynnt appið Embla sem talar og skilur íslensku.

Í dag gefst almenningi jafnframt kostur á að koma í Útvarpshúsið milli klukkan eitt og fjögur, lesa upp valda texta í beinni útsendingu á ruv.is úr íslenskum skáldsögum, ljóðabókum og dægurmenningu, og gefa um leið raddsýni sitt á vefinn samromur.is. Ekki er þörf á sérstökum undirbúningi.

Í Kakalaskála í Skagafirði verður dagskrá klukkan átta í kvöld, þar sem meðal annars Skagfirski kammerkórinn og nemendur úr Varmahlíðarskóla flytja dagskrá tileinkaða Jóni Árnasyni þjóðsagnasafnara. Á þessu ári eru 200 ár liðin frá fæðingu hans.

Menntamálastofnun, í samvinnu við KrakkaRÚV, efnir svo til vísnasamkeppni þar sem grunnskólanemar botna fyrriparta eftir Ragnar Inga Aðalsteinsson.

Málfarsráðuneyti Ríkisútvarpsins tók jafnframt saman lista með nýlegum íslenskum lögum í tilefni dagsins.