Dagur í lífi Emils: Bíður eftir réttu tilboði

Mynd: Óskar Þór Nikulásson / RÚV

Dagur í lífi Emils: Bíður eftir réttu tilboði

20.10.2019 - 19:30
Emil Hallfreðsson landsliðsmaður í fótbolta hefur verið án félags síðan í vor eða síðan samningur hans við Udinese á Ítalíu rann út. Síðustu fimm fótboltaleikir sem Emil hefur spilað hafa verið landsleikir með Íslandi. Emil býr á Íslandi meðan hann bíður eftir því að fá samning hjá nýju félagi. En hvernig er dagur í lífi landslisðmanns í fótbolta sem er án félags? Við fengum að fylgja Emil eftir á fimmtudag.

Styttri útgáfu af innslaginu var sýnt í kvöld í íþróttum á sunnudegi á RÚV. Allt innslagið er hins vegar aðgengilegt í spilaranum hér fyrir ofan. En hvernig er týpískur dagur í lífi Emils þessa dagana?

„Ég vakna svona um klukkan 7:30 og þá er bara tekinn morgunmatur í rólegheitum með börnunum. Ég reyni samt að fasta flesta morgna fram að hádegi. Mér finnst það frekar gott. Svo er bara að gera og græja og fara með krakkana í skólann,“ segir Emil, en hann á tvö börn, þriggja og átta ára. Þau eru alin upp á Ítalíu, en meðan Emil er félagslaus fá þau að ganga í skóla og leikskóla á Íslandi.

Eftir að Emil hefur komið börnunum í skóla og leikskóla á morgnanna er komið að morgunkaffinu. Það tekur hann oftar en ekki á kaffihúsinu Pallett í Hafnarfirði. „,Þeir gera góðan cappucino. Maður gerir miklar kröfur eftir öll árin á Ítalíu,“ segir Emil sem spilaði í 12 ár á Ítalíu með Reggina, Verona, Udinese og Frosinone.

„Ég fæ mér nú ekkert alltaf cappucino á morgnanna. Ég kem heldur ekkert alla daga hérna. En ég kem hérna inn á milli og hitti Hákon bróður og þá fæ ég mér yfirleitt bara svart kaffi,“ segir Emil, en eftir kaffið er komið að því að taka æfingu. Meðan Emil er á Íslandi æfir hann í Kaplakrika og fær að nota aðstöðuna hjá FH, sem er uppeldisfélag hans. Þar æfir hann gjarnan með Hákoni bróður sínum, sem vill til að er líka þrekþjálfari meistaraflokks karla í fótbolta hjá FH. Emil fékk líka að æfa með FH-ingum í haust á meðan Pepsi Max deildin var enn í gangi.

Spurður hvort Emil bíði við símann allan daginn eftir því að eitthvað gerist og að hann fá samningstilboð einhvers staðar frá segir hann nú ekki vera svo. „Nei, ég kannski bíð ekkert við símann. En maður er alltaf að vonast eftir því að það rétta fari að detta inn. En á meðan er ég bara að gera hluti sem þið hafið fengið að sjá mig gera í morgun,“ segir Emil

En er hann að stressa sig á ástandinu, að vera ekki kominn í neitt lið nú þegar langt er liðið á október? „Ég væri klárlega til í að ég væri búinn að ganga frá þessu. En jú, það koma alveg augnablik inn á milli þar sem maður hugsar af hverju rétta dæmið hefur ekki komið upp.“

En væri Emil til í að spila á Íslandi næsta sumar, ef ekkert fer að gerast hjá honum? „Nei, ég er ekki þar ennþá. Auðvitað á maður aldrei að segja aldrei. En ég á nóg eftir á tankinum að mínu mati til að gefa af mér úti ennþá,“ segir Emil.

En hefur Emil hafnað einhverjum tilboðum? „Já, ég hef fengið einhver tilboð frá löndum sem ég er bara ekki alveg tilbúinn í að fara með fjölskylduna. Einhvers staðar lengst úti í heimi. En þau eru ekkert mörg. Bara nokkur sem ég afþakkaði strax. En ég er alltaf að vona að Ítalía detti inn. En samt sem áður er ég alveg farinn að opna hugann fyrir öllu núna eiginlega. En ég er mjög ólíklega að fara með fjölskylduna til Indónesíu eða eitthvað álíka,“ segir Emil sem er mikill fjölskyldumaður.

Það kemur því alls ekki til greina að flytja eitthvað út án fjölskyldu sinnar. „Við erum bara fjölskylda og tökum slaginn saman í þessu hvert sem það verður. Við erum í þessu saman og stöndum í þessu saman. Mér þætti mjög erfitt að fara eitthvað einn. Þannig að við förum öll saman. Við höfum gert það hingað til og ég held að það verði engin breyting á því. Þannig ég er mjög heppinn að eiga góða fjölskyldu - góða konu sem að nennir að fara með mér út um allt,“ segir Emil.

Eftir góða æfingu í Kaplakrika er förinni haldið í sjúkraþjálfun. Þar tekur Friðrik Ellert Jónsson einn sjúkraþjálfara íslenska landsliðsins á móti Emil. Friðrik ber Emil vel söguna og segir hann í góðu líkamlegu standi þrátt fyrir að vera orðinn 35 ára. „Í mínum huga á Emil eftir að minnsta kosti tvö ár í hæsta klassa. Af hverju segi ég það að hann eigi allavega tvö ár eftir orðinn 35 ára? Aðal ástæðan fyrir því er að hann hugsar gríðarlega vel um sig. Hann gerir fullt af aukaæfingum og hugsar vel um að gera forvarnaræfingar og svoleiðis. En svo passar hann líka vel upp á aðra hluti eins og mataræðið og svefninn og svoleiðis. Þannig að ég fullyrði það að hann á tvö ár eftir,“ segir Friðrik sjúkraþjálfari sem telur jafnframt að liðið sem semur við Emil verði heppið að fá hann í sínar raðir.

„Auðvitað fer að koma að því að ég þarf að fara að skrifa undir hjá liði bara fyrir mig til að fara að spila fótbolta. Það er það sem ég sakna mest að vera ekki á fullu í þessu vikulega og að vera í samkeppninni úti við liðsfélagana um að komast í liðið og allt þetta. Þannig að ég eiginlega get ekki beðið eftir að þetta klárist,“ segir Emil um stöðu mála.

En hvað með Erik Hamrén landsliðsþjálfara Íslands. Er hann í stöðugu sambandi við Emil til að fá fréttir af stöðunni? „Ég get nú ekki sagt að hann hringi í hverri viku. En hann heyrir alveg í mér inn á milli. Auðvitað langar hann til að ég finni mér lið sem fyrst þannig að það sé ekki eitthvað óþægilegt fyrir hann að velja mig. En ég held samt að í síðasta landsliðsverkefni að við liðslausu félagarnir hefðum sýnt það að við eigum alveg heima í þessum hóp og getum spilað þegar þess þarf. Birkir [Bjarnason] sýndi það á móti Frökkum og ég gat komið inn á móti Andorra. Ég hefði vel getað spilað 90 mínútur líka að mínu mati,“ segir Emil.

Eftir sjúkraþjálfun borðar Emil hádegismat. Það gerir hann yfirleitt heima hjá sér. Á meðan Birkir Bjarnason félagi hans úr landsliðinu var líka án félags æfðu þeir Emil oftast saman og borðuðu svo saman heima hjá Emil. Nú hefur Birkir hins vegar samið við Al Arabi í Katar.

„Svo þegar maður er búinn með hádegismatinn þá fer maður í að hjálpa Ásu í fyrirtækinu okkar sem heitir OLIFA. Þá er maður að gera það sem þarf að græja þar. Stundum sækja vörur í Eimskip til dæmis,“ segir Emil sem ásamt eiginkonu sinni, Ásu Reginsdóttur rekur fyrirtækið OLIFA sem flytur inn ítalskar ólífuolíur til Íslands ásamt fleiri matvælum. Eftir að því er lokið eru börnin svo komin heim úr skóla og leikskóla og við tekur að koma þeim í tómstundir.

„Einhvern tímann fyrr í sumar hefði maður getað verið búinn að skrifa undir eitthvað en var þá að búast við einhverju betra. Einhverju sem maður hefði kannski tekið í dag. En það er bara eins og gengur og gerist. Maður velur og hafnar. Það er bara að halda áfram. Þannig að núna er umboðsmaðurinn bara í því að sjá hvaða möguleikar eru í boði. Þannig að maður bíður í raun bara daglega eftir einhverjum nýjum upplýsingum,“ segir Emil sem er þó bjartsýnn.

„Ég er mjög bjartsýnn. Ég hef enga trú á öðru en að ég finni eitthvað gott lið. Ég get líka lofað því að liðið sem fær mig verður mjög ánægt með mig þegar ég mæti á sviðið. Ég er alveg viss um það,“ segir Emil Hallfreðsson landsliðsmaður í fótbolta í innslaginu sem sjá má í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.