Daglegt tónlistarstreymi úr Eldborg heim í sófa

Mynd með færslu
 Mynd: Baldur Kristjánsson - Synfóníuhljómsveit Íslands

Daglegt tónlistarstreymi úr Eldborg heim í sófa

21.03.2020 - 13:02

Höfundar

Gissur Páll Gissurarson og Árni Heiðar Karlsson flytja sígræn sönglög á fyrstu tónleikum í tónleikaröð Hörpu, Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Íslensku Óperunnar sem hefst í fyrramálið. Streymt verður beint frá Hörpu á hverjum virkum morgni klukkan 11 á meðan samkomubann stendur yfir.

Í ríkjandi samkomubanni hefur flestum tónleikum og listaviðburðum vorsins verið aflýst. Til að létta lund landsmanna, sem verja nú mestum tíma heimafyrir og þurfa margir á hughreystingu að halda, hafa ýmsir listamenn brugðið á það ráð að streyma listviðburðum beint í gegnum internetið svo enn sé hægt að njóta lifandi flutnings heima í stofu.

Harpa, Sinfóníuhljómsveit Íslands og Íslenska Óperan hafa tekið höndum saman og bjóða nú, í samstarfi við RÚV, upp á lifandi tónlistarstreymi úr Eldborg klukkan 11 á morgnanna alla virka daga á meðan samkomubannið stendur yfir. Herlegheitin hefjast strax í fyrramálið, sunnudaginn 22. mars þegar Gissur Páll Gissurarson og Árni Heiðar Karlsson flytja sígræn sönglög, ítölsk og íslensk. Hverjir tónleikar var í um 20-30 mínútur.

Dagskráin næstu morgna er svohljóðandi:
Sunnudagur 22.03

  • Gissur Páll Gissurarson og Árni Heiðar Karlsson flytja aríur úr suðri og norðri. Lög og ljóð eftir Puccini, Sigvalda Kaldalóns, Tosti og fleiri. 

Mánudagur 23.03

  • Tangóar og tríó eftir Atla Heimi Sveinsson, F. Borne og Jósep Haydn í flutningi hljóðfæraleikara Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Áshildar Haraldsdóttir, Bryndísar Höllu Gylfadóttur og Önnu Guðnýjar Guðmundsdóttur.

Þriðjudagur 24.03

  • Aríur dagsins í túlkun íslenskra óperusöngvara og Bjarna Frímanns Bjarnasonar.

Miðvikudagur 25.03

  • Mozart á miðvikudegi. Hin undurfallega Serenaða í c-moll eftir W.A. Mozart í flutningi blásaraoktetts úr Sinfóníuhljómsveit Íslands. 

Fimmtudagur 26.03

  • Rússneskir ljóðasöngvar og vinsælir slagarar í flutningi Nathalíu Druzin og Önnu Guðnýjar Guðmundsdóttur. 

Föstudagur 27.03

  • Hið ómótstæðilega Dúó Stemma skipað víóluleikaranum Herdísi Önnu Jónsdóttur og Steef van Oosterhout slagverksleikara úr Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Streymt verður frá tónleikunum á Youtube-rás Hörpu og á Menningarvef RÚV.is.

 

Tengdar fréttir

Innlent

Heimsending á ljúfum tónum Sinfó

Klassísk tónlist

Heimsendingar frá Sinfó í samkomubanni