Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Dæmdar refsingar 40% þyngri en allt árið á undan

21.01.2020 - 07:58
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Dæmdar refsingar á árinu 2019 voru 40 prósentum þyngri en allt árið á undan og aldrei hafa verið fleiri í gæsluvarðhaldi frá því að skráningar hófust. Þetta kemur fram í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn  frá Ómari Ásbirni Óskarssyni, varaþingmanni Viðreisnar um fangelsismál og afplánun dóma. Í svarinu kemur fram að þetta tvennt hafi mikil áhrif á biðlista eftir afplánun refsinga.

Í fyrra hafi meðalbiðtími eftir afplánun dóma verið hátt í 20 mánuðir, eða meira en tvöfalt lengri en hann var tíu árum áður. Í svari dómsmálaráðherra kemur fram að margar ástæður geti verið fyrir biðtímalengd og að í raun sé ekki hægt að vísa í biðtíma í sjálfu sér. Dómþolar geti sjálfir óskað eftir fresti á afplánun, dómþolar fari úr landi áður en unnt sé að fullnusta refsingum framsali á dómþolum milli landa sé synjað og svo framvegis. Þá reyni fangelsimálastofnun að verða við óskum dómþola um að hefja afplánun. 

Hátt í tvö þúsund óskilorðsbundnum dómum hafi verið fullnægt með samfélagsþjónustu frá því  það var heimilað var árið 1995. Í svarinu kemur fram að það séu tæp 20 prósent af fjölda dóma á sama tíma.

Heimildir til afplánunar utan fangelsa  með rafrænu eftirliti og samfélagsþjónustu hafi aukist með breytingum á lögum. Þá hafi fangelsisyfirvöld dregið úr fjölda þeirra sem bíði afplánunar með auknum fjárveitingum til að fullmanna fangelsið á Hólmsheiði. 

asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV