Daði og Gagnamagnið í efsta sæti hjá veðbönkum

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú

Daði og Gagnamagnið í efsta sæti hjá veðbönkum

02.03.2020 - 11:40
Veðbankar sem spá fyrir um gengi landa í Eurovision eru bjartsýnir á gengi Daða og Gagnamagnsins í keppninni í Rotterdam. Laginu Think about things er spáð fyrsta sæti.

Daði og Gagnamagnið báru sigur úr býtum í úrslitum Söngvakeppninnar eftir að hafa háð einvígi við hljómsveitina Dimmu. Þau verða því fulltrúar Íslands í Rotterdam í maí og Íslendingar virðast hafa ástæðu til þess að vera bjartsýnir ef marka má spár veðbankanna. 

Eftir að ljóst var á laugardag að Think about things yrði framlag Íslands spáðu veðbankarnir laginu sjöunda sæti en nú hefur það hins vegar rokið upp, alla leið í fyrsta sæti, rétt yfir lag Litáen sem vermt hefur efsta sætið hingað til. Spá Eurovisionworld byggist á meðaltali fjölmargra veðbanka og breytist reglulega en lag Daða og Gagnamagnsins byrjaði daginn í öðru sæti. 

Mynd með færslu
 Mynd: Eurovisionworld
Spá Eurovisionworld

Daði og Gagnamagnið hafa fengið mikinn stuðning utan landsteinanna en leikarinn Russel Crowe er meðal þeirra sem deilt hafa myndbandinu við lagið og þá hefur hann sömuleiðis vakið athygli hjá sænskum áhrifavöldum. Þó skal tekið fram að ekki hafa enn allar þátttökuþjóðir valið sína fulltrúa og því viðbúið að spár breytist þegar nær dregur keppninni sjálfri í maí. Við höldum þó að sjálfsögðu áfram að vona það besta. 

Fréttin hefur verið uppfærð eftir að lagið komst í efsta sæti veðbankanna.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Daði Freyr bar sigur úr býtum í Söngvakeppninni

Tónlist

Russell Crowe tístir um Gagnamagnið

Popptónlist

Daði og gagnamagnið með myndband