Hatrið mun sigra, Evrópa hrynja söng Hatari, fulltrúar Íslands í Eurovision í fyrra. Sveitin vakti heimsathygli og fór í kjölfarið á tónleikaferðalag - sem bar yfirskriftina Europe Will Crumble - Evrópa mun hrynja.
Hér verða liðsmenn Hatara hins vegar ekki á neinn hátt gerðir ábyrgir fyrir því að aðstæður í Evrópu, og reyndar víðar, eru nú með þeim hætti að Eurovision-söngvakeppnin verður ekki haldin í Rotterdam í Hollandi í vor eins og til stóð.
Það þýðir að Daði Freyr og Gagnamagnið hans taka ekki þátt fyrir hönd Íslands í ár, alla vega ekki í bili. Sú staðreynd hefur lagst illa í aðdáendur Daða og Gagnamagnsins, því þrátt fyrir óbilandi bjartsýni Íslendinga um gott gengi í Eurovision ár hvert voru viðtökurnar í Evrópu umtalsvert betri en oft áður og Daða spáð einu af efstu sætunum í keppninni.
Daði Freyr var í viðtali á BBC World í gærkvöld, hjá manni sem tók sig til og gaf Íslandi fullt hús stiga. Brot úr viðtalinu má sjá á meðfylgjandi myndskeiði.
Og fréttaþulur BBC er ekki sá eini, undirskriftarlistar hafa skotið upp kollinum á netinu þar sem forsvarsmenn keppninna eru hvattir til að krýna Íslendinga einfaldlega sigurvegara í keppninni sem ekki verður haldin.