Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

COVID-19 tilfelli orðin 161

14.03.2020 - 22:36
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fimm ný tilfelli COVID-19 voru greind hér á landi í kvöld. Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra greinir frá þessu á Facebook. Heildarfjöldi tilfella er því orðinn 161. Stjórnvöld vöruðu fólk við því í dag að fara til útlanda, og hvöttu þá sem eru erlendis til að huga að heimferð. Áhættustig fyrir Spán, Þýskaland og Frakkland var hækkað upp í hááhættustig, og á það einnig við um Kanaríeyjar.

Þeir sem komu heim í dag og næstu daga frá Spáni og Frakklandi þurfa að fara beint í fjórtán daga sóttkví, og þeir sem komu heim frá Þýskalandi frá og með 12. mars þurfa einnig að dvelja í sóttkví í tvær vikur.

Samkomubann tekur gildi á mánudag, og verður þá einnig lokað öllum framhalds- og háskólum á landinu. Grunn- og leikskólar verða áfram opnir, en með breyttu sniði. Formaður sambands íslenskra sveitarfélaga segir skólayfirvöld í hverju sveitarfélagi þurfa að meta aðstæður á sínum stað. Víða um land er starfsdagur í skólum og leikskólum á mánudaginn á meðan yfirvöld ráða úr því hvernig skólahald verður.