Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

COVID-19 smitin orðin 35 talsins

05.03.2020 - 17:51
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
35 Íslendingar hafa verið greindir með kórónaveiruna COVID-19, að því er fram kemur í stöðuskýrslu Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra sem send var fjölmiðlum á sjötta tímanum. Fólkið er allt í einangrun. Tvö smit voru greind í dag. Hjá einum er enn verið að bíða eftir staðfestri niðurstöðu.

Um 400 manns sem hafa verið í samskiptum við þau sem hafa verið greind með sjúkdóminn eru í sóttkví. Sá sem fyrst smitaðist hefur verið útskrifaður af spítala og er heima í einangrun. 

Viðbúið er að enn fjölgi í hópi þeirra sem greindir hafa verið með kórónaveirusmit hér á landi. Víðir Reynisson hjá Almannavörnum sagði í Síðdegisútvarpi Rásar tvö, að í dag væri verið að rannsaka tugi sýna og nánast væri öruggt að einhver þeirra reynist jákvæð. Það myndi skýrast í kvöld. 

Allt fólkið, sem hefur verið greint með veiruna hér á landi, var á ferðalagi á Norður-Ítalíu eða í Austurríki og höfðu því fengið ráðleggingar um að fara beint í sóttkví við heimkomu. 

25 sýni voru rannsökuð á Landspítala í dag. Í stöðuskýrslunni segir að unnið sé að því að auka afkastagetu í greiningu smita á sýkla- og veirufræðideild spítalans. Frá upphafi hafa um 330 sýni verið rannsökuð.

Tíu Íslendingar eru í sóttkví á hóteli á Tenerife. Þeir fara í veirupróf á morgun og ef niðurstaðan verður sú að þeir séu ekki sýktir fá þeir að fara þaðan í flugvél á laugardag, með beinu flugi til Íslands. 

Á heimsvísu hafa smit verið staðfest hjá 96.888 manns. Um 3,5% þeirra hafa látist, 3.305 manns. Samkvæmt gagnagrunni John Hopkins-háskólans hafa 53.638 einstaklegar náð sér eftir veikindin. Sóttvarnastofnun Evrópu hefur breytt áhættumati sínu yfir í að faraldurinn geti orðið meðalstór eða mikil lýðheilsuógn.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir