Norræna kemur í hverri viku til Seyðisfjarðar frá Danmörku með viðkomu í Færeyjum. Í morgun voru um fimmtíu farþegar í henni en eftir nokkrar vikur margfaldast þeir. Sumarmánuðirnir eru háannatími.
Það skal áréttað Norræna hefur ekki verið sett í sóttkví. Það verður hins vegar viðbragðið ef grunur er á að einhver sé smitaður um borð.
Almannavarnanefnd Austurlands hefur fundað í þrígang vegna COVID-19 veirunnar. „Það er verið að samræma verklag og aðgerðir, ásamt því að skipuleggja farsóttahús ef til kæmi smit,“ segir Hjalti Axelsson, aðalvarðstjóri lögreglunnar á Austurlandi.
Sýni sent til Reykjavíkur
Búið er að skipuleggja viðbrögð vakni grunur á smituðum farþegum eftir að þeir hafa farið frá borði. Leiki grunur á því að einhver hafi smitast sem enn er um borð í ferjunni þarf að senda sýni til Reykjavíkur og fá það staðfest.
Hjalti segir að ferjan yrði látin bíða í höfninni á meðan. „Og þá í framhaldi yrði ákveðið um næstu skref. Við reiknum með að skipið yrði sett í sóttkví á meðan það er verið að staðfesta hvort þetta er smit eða ekki,“ segir Hjalti.
Sé grunur um smit í ferjunni er mikilvægt að gera farþegum og Seyðfirðingum viðvart. „Eða sem sagt hvaða viðbrögð fólk á að sýna. Það er verið að vinna í því hér að það komi SMS sendingar á ákveðnum tímum vikunnar í þá síma sem eru innan svæðisins.“
Eru innviðir hér nógu sterkir til að taka á móti smiti? „Við teljum innviði nógu sterka til að takast á við fyrstu skref. Svo er það spurning um framhaldið, það veit enginn,“ segir Hjalti.
Uppfært kl. 12:41 - Fréttin var uppfærð með áréttingu um að Norræna sé ekki í sóttkví.