COVID-19 möguleg hefnd hreisturdýrsins

18.03.2020 - 14:25
Mynd: Wikipedia / Wikipedia
Kínverskir vísindamenn telja nú líklegt að COVID-19 hafi smitast frá leðurblökum í menn í gegnum dularfullt hreisturdýr sem lifir villt í Asíu og sums staðar í Afríku. Dýrið er í útrýmingarhættu og ólöglegt er að veiða það en samt eru afurðir úr því vinsælar á svörtum markaði í Kína.

Villt næturdýr sem vill frið frá mannfólki

Kórónaveiran, sem heldur nú heimsbyggðinni í heljargreipum, hefur hingað til verið talin eiga upptök sín í sýktum leðurblökum sem seldar eru víða á matarmörkuðum í Kína. Eftir að veira, keimlík þeirri sem veldur COVID-19, fannst í öðru næturdýri telja kínverskir vísindamenn hins vegar líklegt að veiran hafi smitast fyrst í þau og þaðan í fólk. Mögulegur smitberi er hreisturdýr, sem nefnist pangólín á flestum erlendum tungumálum, og er næturdýr sem lifir villt í náttúrunni og er mun vinsælla hjá mannfólki en það kærir sig um.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Vera Illugadóttir er manna fróðust um skynugar skepnur

Talin geta læknað marga kvilla

Dýrinu svipar til mauraætu. Það er aðeins stærra en köttur og þakið hörðu hreistri. Vegna mikillar verslunar með afurðir úr þeim er dýrið talið vera í mikilli útrýmingarhættu og hefur verslun með það því verið bönnuð í um þrjátíu ár. Samt má finna afurðir dýranna víða á mörkuðum í Kína, meðal annars þar sem talið er að veiran hafi fyrst komið upp í Wuhan. Hreisturdýrin eiga sér nefnilega fáa óvini aðra en menn sem enn keppast við að komast yfir þau til að selja kjöt þeirra og afurðir á uppsprengdu verði. Þau þykja enda afar bragðgóð en afurðir úr þeim eru einnig notaðar í ýmis meðul sem talin eru geta læknað alla mögulega kvilla, róað börn, læknað gigt og hvað sem kann að hrjá fólk.

Daðra við pólitíkusa með pangólínkássu

Kínverskur blaðamaður skrifaði grein í New York Times þar sem hann spurði hvort veiran væri mögulega hefnd pangólínsins fyrir þá meðferð sem dýrið hefur sætt af hendi manna. Vera Illugadóttir, sérfræðingur um furðudýr og sögur frá ýmsum heimshornum, sagði frá hreisturdýrunum í Morgunþætti Rásar 1 og Rásar 2 og segir hún af dýrum sem smyglað sé til Kína sé mest smyglað af pangólín. Pangólínverslun sé um tuttugu prósent af allri ólöglegri verslun með dýr og dýraafurðir þar í landi þrátt fyrir að lagt hafi verið blátt bann við veiðum á því. „Þetta er dýr sem er ekki mjög þekkt utan Asíu en er gífurlega verðmætt,“ segir hún. Fyrir tveimur áratugum eða svo kostaði kíló af pangólínkjöti sirka 2000 krónur en þar sem kjötið er orðið illfáanlegt sé kílóverðið komið í um 85 þúsund krónur. „Þetta þykir gífurlegt lostæti. Ef þú ert kaupsýslumaður sem vilt heilla pólitíkus býðurðu honum upp á pangólínkássu eða pangólínrétt.“

Ekki hentugt gæludýr

Dýrið er villidýr sem þrífst ekki vel í haldi manna. Vera segir að þegar dýraverndunarsamtök hafi bjargað pangólínum frá smyglurum og reynt að ala þau upp hafi þau dafnað afar illa enda vilji þau fá að vera í friði. „Þau vilja helst vera út af fyrir sig, þetta þykka og harða hreistur bendir til þess.“ Þegar hætta steðji að rúlli dýrið sér saman í harðan bolta svo ekkert dýr getur valdið þeim skaða. „Nema kannski maðurinn,“ segir Vera að lokum. Maðurinn hefur því mögulega fengið á baukinn eftir að hafa gert hreisturdýrunum lífið leitt í áraraðir.

Rætt var við Veru Illugadóttur í Morgunþætti Rásar 1 og Rásar 2.

 

juliame's picture
Júlía Margrét Einarsdóttir
vefritstjórn
bjornthor's picture
Björn Þór Sigbjörnsson
dagskrárgerðarmaður
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi