COVID-19 gæti orðið óviðráðanleg ef hún er ekki stöðvuð

15.02.2020 - 13:30
Mynd:  / 
Það er gríðarlega mikilvægt að reyna að stöðva útbreiðslu á nýjum veirustofni eins og COVID-19. Ef ekki verður brugðist við gæti veiran orðið óviðráðanlegt vandamál, segir Magnús Gottfreðsson smitsjúkdómalæknir. Meira en 250 þúsund manns deyja úr inflúensu á hverju ári. Inflúensuveiran er því ennþá talsvert umfangsmeira vandamál en nýja COVID-19 veiran.

Of snemmt að líkja COVID-19 við spænsku veikina

Þeim fjölgar stöðugt sem látast af völdum kórónaveirunnar COVID-19 á heimsvísu. Veiran er upprunnin í Hubei-héraði í Kína og þar létust yfir 240 manns í gærkvöldi. Borið hefur á því að fólk líki þessum faraldri við spænsku veikina fyrir um hundrað árum. 

Magnús segir of snemmt að tala um líkindi milli þessara faraldra því enn sé ekki ljóst hvernig COVID-19 á eftir að þróast. Enn sem komið er sé reynsla af henni nánast bundin við eitt hérað í Kína.   

COVID-19 og inflúensuveiran sem olli spænsku veikinni eigi það sameignlegt að vera nýir stofnar af tiltölulega smitandi veirum.  

„Þarna eru nýjar veirur sem koma með miklum látum inn í samfélög og einkennin eru tiltölulega áþekk á margan hátt. Þetta eru svona þessi hefðbundnu einkenni sem fylgja þá veirusýkingum í aðallega  efri öndunarfærum en síðan er ákveðinn hluti sjúklinga sem fær lugngnabólgu og það hlutfall virðist vera hærra en gengur og gerist í venjulegum veirusýkingum svona eins og árstíðabundinni inflúensu sem herjar á okkur á hverju ári.“ 

Svipuð sjúkdómseinkenni af COVID-19 og inflúensu

Magnús segir að ekki sé vitað hversu margir sem smitast af COVID-19 verða veikir. Einkenni hennar og flensuveiru séu svipuð. Allmargir gætu hafa fengið léttvæg einkenni af COVID-19 og ekki leitað læknis og því er eingöngu verið að skoða hluta af myndinni. 
Spænska veikin hafi gengið í þremur bylgjum. Þegar hún braust fyrst út var hún væg en seinni bylgjan skall á með fullum þunga um haustið og þá hafði veiran  breytt um eðli.

„Hvort það er eitthvað svoleiðis á ferðinni núna er bara einfaldlega of snemmt að segja. Við þyrftum að geta mælt mótefni gegn þessari veiru í stórum hópum til þess að kanna hvort að fólk hafi hugsanlega smitast en ekki veikst alvarlega.“ 

Spænska veikin var flensuveira sem er ólík að eðli og uppbyggingu kórónaveira.  

„En það er hins vegar mjög vel þekkt að eðlisólíkar veirur geta valdið svipuðum einkennum. Og ástæðan fyrir því er sú að líklega er stór hluti af okkar einkennum og sjúkdómsmynd afleiðing af viðbrögðum ónæmiskerfisins. Og ef ónæmiskerfið bregst eins við, hvort sem það heitir veiran heitir inflúensa eða kórónaveira, þá getum við ekki greint á millli nema með því að gera nákvæmar rannsoknir á lífsýnum og reyna að finna veiruna frá þessum einstaklingum.“

Reynt verður að fara framhjá bráðamóttökunni

Mikil umræða hefur verið um ástandið á Landspítalanum, skort á starfsfólki, bráðamóttökuna og ófullnægjandi einangrunaraðstöðu þar.

„En viðbrögð farsóttanefndar og þeirra sem stjórna spítalanum miðast við það að ef sterkur grunur leikur á að um sé að ræða einstakling sem er veikur og þarfnast innlagnar á sjúkrahús verður leitast við að taka viðkomandi inn á  smitsjúkdómadeild fram hjá Bráðamótttökunni og það er lagt upp með það eins og staðan er í dag.“

Á síðustu árum hafa Íslendingar fengið að kenna á nokkrum faröldrum: HABL-faraldrinum 2002-2003, svínaflensufaraldri 2009 og síðan ebólufaraldrinum. Í öllum tilvikum var þörf á undirbúningsvinnu á vegum Almannavarna, sóttvarnalæknis og Landspítala. Þessi undirbúningur skili sér nú. Magnús vonar að Íslendingar séu betur í stakk búnir til að takast á við svona faraldur en þegar spænska veikin geisaði. 

Heilbrigðiskerfi ráða ekki við pest eins og spænsku veikina

„Í öllum kerfum eru alltaf einhverjir þröskuldar eða flöskuhálsar og þeir sem hefur verið bent á ítrekað felast í þessu að okkur skortir starfsfólk á ákveðnum deildum og fjöldi gjörgæslurúma er ekki fullnægjandi svona  í evrópskum samanburði.  Þannig að ef um er að ræða mjög umfangsmikinn faraldur þá er hægt að reikna sig fram í niðurstöðu sem er uggvænleg. Og það er auðvitað þannig bara með öll heilbrigðiskerfi að ekkert þeirra ræður við sviðsmynd sem er eins og spænska veikin var. Hún var það svakaleg á sínum tíma að það hefði jafnvel ekki öflugasta heilbrigðiskerfi heims getað tekist á við þá áskorun á svona skömmum tíma. Og þess vegna miðast auðvitað ráðstafanir núna við það að hægja á útbreiðslunni þannig að álaginu sé dreift og reynt að draga úr álaginu.“

Gæti þessi veira orðið eins og spænska veikin?  „Það  er ómögulegt að segja. Þetta er náttúrlega veira af annarri tegund. Við höfum reynslu af öðrum kóronaveiru-öndunarfærasýkingum sem eru mjög  léttvægar og tiltölulega væg einkenni í langflestum tilvikum. Síðan höfum við þessa tvo faraldra af völdum kórónaveira sem hafa komið fram. Annars vegar HABL-faraldurinn 2003 og hins vegar faraldur sem kallaður er MERS og var upprunninn á Arabíuskaganum  og báðir þessir faraldrar kölluðu á viðbrögð Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar á sínum tíma.“ 

Meir en 250 þúsund deyja árlega úr flensu

Árlega berast hingað flensuveirur sem hafa mikil áhrif. „Það er áætlað að 250 þúsund manns, jafnvel hálf milljón manna, deyi í kjölfar þessarar hefðbundnu flensu á hverju einasta ári og það er yfirleitt fólk sem er eldra eða fólk með undirliggjandi sjúkdóma og þá bætist þetta ofan á það sem fyrir er og veldur alvarlegri sýkingu eins og lungnabólgu og þess háttar. Þannig að þetta er þá á heimsvísu.“ 

Talið er að allt að fjórtán hundruð manns hafi látist úr COVID-19 sýkingu. Þegar HABL-faraldurinn geisaði létust milli sjö og átta hundruð.  

„Þannig að ef við lítum bara á þessar tölur þá er inflúensan talsvert umfangsmeira vandamál en hins vegar vil ég alls ekki gera lítið úr því að það er gríðarlega mikilvægt að reyna að stöðva útbreiðslu á svona nýjum veirustofni eins og þarna er um að ræða, einmitt vegna þess að við sjáum hvað er að gerast á þessu tiltölulega þéttbýla svæði í Kína. Við getum séð og dregið þá okkar ályktarnir að ef ekki verður brugðist við getur þetta orðið óviðráðanlegt vandamál.“
 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi