Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

CLN-málið: „Ég held að þetta sé komið nóg“

04.07.2019 - 12:57
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Hörður Felix Harðarson, lögmaður Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, segir ánægjulegt að sjá að héraðsdómur meti sem svo að enginn ásetningur hafi verið hjá þremenningunum í CLN-málinu svokallaða.

Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi yfirmenn Kaupþings, voru sýknaðir í Héraðsdómi Reykjavíkur í málinu í morgun. Þeir voru sakaðir um umboðssvik vegna tugmilljarða lánveitinga til aflandsfélaga frá því í ágúst til október 2008. Lánin fóru til tveggja félaga sem keyptu lánshæfistengd skuldabréf af Deutsche Bank sem tengd voru skuldatryggingaálagi Kaupþings. Taldi ákæruvaldið markmiðið hafa verið að lækka skuldatryggingaálagið. Í dómi héraðsdóms í dag eru forsendur fyrir sýknu breyttar - metið var hvort ásetningur var til auðgunarbrota og er niðurstaðan að svo hafi ekki verið.  

Hörður Felix segir ekki ljóst hvað taki nú við. „Ég ætla svo sem ekki að spá fyrir um það. Ég svo sem vona hinsvegar að þessari vegferð sé lokið. Hún er orðin nú þegar allt of löng.  Þetta mál er núna í rauninni búið að vera í þrígang í meðferð hér fyrir dómi, einu sinni fyrir Landsrétti, einu sinni fyrir Hæstarétti. Ég held að þetta sé komið nóg.“

 

 

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV
asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV