Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Cavusoglu blandar sér í burstamálið

epa07104103 Turkish Minister of Foreign Affairs Mevlut Cavusoglu speaks during a joint press conference with his Albanian counterpart Ditmir Bushati (not pictured) following their meeting in Tirana, Albania, 19 October 2018.  EPA-EFE/MALTON DIBRA
Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands. Mynd: EPA-EFE - EPA

Cavusoglu blandar sér í burstamálið

10.06.2019 - 06:54
Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands, er ekki par sáttur við meðferðina sem tyrkneska karlalandsliðið í fótbolta fékk við komuna til landsins í gærkvöld. Um þrjár klukkustundir liðu frá því að flugvélin lenti þar til pirraðir leikmenn liðsins komust í gegnum vegabréfaeftirlit á Keflavíkurflugvelli, tjáðu þeir tyrkneskum fjölmiðlum.

Cavusoglu segir í færslu á Facebooksíðu sinni að meðferðin sem landsliðið hafi fengið á Keflavíkurflugvelli hafi verið óásættanleg, bæði hvað varðar diplómatísk samskipti Íslands og Tyrklands og mannúðlega meðferð á leikmönnunum. Hann segir stjórnvöld ætla að gera hvað þau geta til að fara í saumana á málinu.

Stuðningsmenn tyrkneska landsliðsins brugðust reiðir við fregnum þarlendra fjölmiðla af óförum leikmanna liðsins á Keflavíkurflugvelli. Viðtal við landsliðsfyrirliðann Emre Belözoglu fór sem eldur í sinu um tyrkneska samfélagsmiðla. Þar sagði hann frá meðferðinni sem landsliðið fékk, og það sem olli enn meiri reiði var að einn þeirra sem var í kringum hann hélt ekki á hljóðnema eins og aðrir, heldur uppþvottabursta. Æstir stuðningsmenn Tyrkja töldu burstann vera klósettbursta og litu á atvikið sem gríðarlega móðgun við fyrirliðann og þjóðina.

Þung orð voru látin falla í ummælum á Facebooksíðu KSÍ, auk þess sem stuðningsmennirnir vildu hafa hendur í hári mannsins með burstann. Þeir töldu hann vera íslenskan fjölmiðlamann, og þurftu þeir nokkrir að bera af sér sakir á samfélagsmiðlum í gærkvöldi og í nótt, því enginn íslenskur fjölmiðill var á Keflavíkurflugvelli að taka á móti tyrkneska landsliðinu.

Í ummælum á Facebooksíðu KSÍ er íslenska landsliðinu og stuðningsmönnum íslenska landsliðsins sem hyggjast mæta á leik liðanna ytra hótað öllu illu. Víðir Reynisson, öryggisfulltrúi KSÍ, segir að þetta furðulega mál verði að öllum líkindum rætt innan stjórnar KSÍ í dag og hvort, og þá hvaða, gripið verði til einhverra viðbragða.

Tyrkneski fjölmiðillinn TRT greinir frá því að talsmenn forsetans Recep Tayiip Erdogan og stjórnarflokksins AK hafi báðir fordæmt framkomu íslenskra yfirvalda gagnvart landsliðinu.

Tengdar fréttir

Tyrkir æfir vegna uppþvottabursta í Leifsstöð