Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Byssurnar með farþegaflugvél til Noregs

24.06.2015 - 17:07
Mynd: ruv / ruv
Hríðskotabyssurnar sem Landhelgisgæslan og embætti ríkislögreglustjóra fengu frá norska hernum á vordögum í fyrra hafa verið sendar aftur til Noregs. Þær voru í morgun sendar með faraþegavél Icelandair til Oslóar.

Eins og kom fram í Speglinum í síðustu viku stóð til að flytja byssurnar til Noregs á fimmtudaginn var. Ekkert varð úr því vegna tæknilegra vandamála sem ekki hefur verið upplýst hver voru. Spegillinn reyndi alla síðustu viku að fá upplýsingar um byssuflutninganna. Ríkislögreglustjóri vísaði á Landhelgisgæsluna og það sama gerði innanríkisráðuneytið. Hins vegar fengust engar upplýsingar frá Landhelgisgæslunni. Þar á bæ var hvorki síma né tölvupóstum svarað. Norski herinn upplýsti hins vegar strax að samkomulag væri við Landhelgisgæsluna að láta herinn vita með viku fyrirvara um byssuflutningana og engin slík tilkynning hefði borist.

Byssurnar hér í rúmt ár
Það var Landhelgisgæslan sem samdi í desember 2013 um kaup, eða gerði samning um að fá hingað 250 hríðskotabyssur af gerðinni MP5. 100 áttu að fara til Gæslunnar og 150 til lögreglunnar. Landhelgisgæslan hélt að frændur okkar hjá norska hernum væru að gefa okkur byssurnar. Þegar kom í ljós að norski herinn væri að selja okkur þær ákvað bæði Ríkislögreglustjóri og Landhelgisgæslan að skila byssunum sem komu hingað á vordögum í fyrra. Ekki væru peningar en verðmiðinn hljóðaði upp á rúmar 11 milljónir og í boði var að greiða í tvennu lagi. Það sem hefur einkennt byssumálið hefur verið tregi stjórnvalda að tjá sig eða segja ekki strax allan sannleikann. Hins vegar hefur norski herinn brugðist við strax og svarað öllum fyrirspurnum greiðlega. Ef hann hefði ekki verið til staðar er óvíst hvort nokkurn tíma hefði verið upplýst nákvæmlega um þessi viðskipti við norska herinn. Og enn og aftur er það norski herinn sem er tilbúinn að veita svör. Vefmiðillinn Stundin sagði frá því að byssurnar væru á leiðinni til Noregs að sögn Sven H. Halvorsen talsmanns hersins. Hann segir í samtali við Spegilinn að byssurnar hafi komið í morgun með farþegaflugvél frá Icelandair

„Ég get staðfest að við höfum tekið á móti byssunum. Þær komu til Gardemoenflugvallar klukkan tuttugu mínútur yfir sjö í morgun með flugi Icelandair FI 316 frá Keflavík. Þannig að nú höfum við fengið byssurnar aftur,“ segir Halvorsen.