Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Byrjuðu að grafa Dýrafjarðargöng fyrir 6 árum

26.05.2016 - 19:29
Framkvæmdir á Dýrafjarðargöngum hófust fyrir sex árum þegar grunnskólanemar á Þingeyri tóku fyrstu skóflustunguna. Sex árum síðar segist einn nemendanna ekki trúa því að göngin verði að veruleika fyrr en byrjað verður á þeim. Útboðsferli Vegagerðarinnar vegna Dýrafjarðarganganna hófst fyrir skömmu.

Með Dýrafjarðargöngum milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar verður fjallvegurinn um Hrafnseyrarheiði leystur af hólmi.  Hann hefur reynst mikill farartálmi á milli norðanverðra og sunnanverðra Vestfjarða enda ekki mokaður árið um kring.

Dýrafjarðargöng hafa verið í kortunum um margra ára skeið og fyrir sex árum tóku grunnskólanemendur á Þingeyri sig til og hófu framkvæmdir. „Við vorum orðin leið á því að bíða og enginn gerði neitt,“ sagði Dýrleif Arna Ómarsdóttir fyrir sex árum. „Ég þoli ekki Hrafnseyrarheiðina, það er hundleiðinlegt að fara yfir hana, ég æli alltaf,“ sagði Birna Steinarsdóttir, hún bjó á Mjólká í Arnarfirði en fór í skóla á Þingeyri, hún er nú flutt á Álftanes. „Við erum bara að flýta fyrir þeim, gera eitthvað í þessu,“ sagði Jóhanna Steinsdóttir og Dýrleif bætti við:  „Erum búin að bíða alltof lengi.“

Sex árum síðar rifja fyrrverandi nemendur grunnskólans á Þingeyri gjörninginn upp: „Ég var í kennslustund og það var einhver umræða um Dýrafjarðargöng og ég spurði hvort að við ættum ekki bara að byrja á þessu sjálf og næsta sem ég vissi þá vorum við á leiðinni,“ segir Jóhanna Steinsdóttir.

Krakkarnir vildu á sínum tíma að ráðist yrði í Dýrafjarðargöngin í beinu framhaldi af göngum um Óshlíð: „Það þarf að gera þessi göng á meðan öll tækin eru fyrir vestan. Annars þarf að borga fyrir flutning aftur í burtu og aftur hingað,“ sagði Anton Proppé Hjaltason og Birna bætti við: „Okkur þætti gott ef fleiri gætu hjálpað að grafa göngin. Ef einhverjir vilja bjóða sig fram til að hjálpa.“

Fyrir skömmu hófst útboðsferli Vegagerðarinnar vegna Dýrafjarðarganganna og er áætlað að framkvæmdir hefjist eftir mitt næsta ár. „Það trúir þessu enginn fyrr en það verður einhver byrjaður að vinna hérna. Það eru allir vongóðir að þetta fari að gerast núna,“ segir Brynjar Proppé Hjaltason.

Gert er ráð fyrir því að verklok ganganna verði árið 2020. „Við erum byrjuð, þau eru bara á eftir áætlun,“ segir Jóhanna að lokum. 

 

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður