Býr í borg sem gefur henni mikinn innblástur

Mynd með færslu
 Mynd: María Guðjohnsen

Býr í borg sem gefur henni mikinn innblástur

29.10.2019 - 13:21
María Guðjohnsen er viðmælandi Hildar í hlaðvarpsþættinum Skaparanum þessa vikuna. Hún er grafískur- og þrívíddarhönnuður. Hún er búsett í Berlín þar sem hún fór í nám í grafískri hönnun en á síðustu mánuðum hefur hún fært sig meira yfir í þrívíddarhönnun.

Þú getur hlustað á þáttinn í heild sinni hér.

María Guðjohnsen fór í nám í grafískri hönnun í Berlín og starfar þar í dag við þrívíddarhönnun. Hún segir frá sýningu sem varð til út frá skrýtnum leigubílstjórum, samstarfi við Adidas, hvernig hún les alltaf bara fyrsta kaflann í bók og hvernig hún skrifar niður fullt af nafnorðum til þess að fá nýjar hugmyndir.

María segir að hún fái bestu hugmyndirnar sínar að nýju verki þegar hún er úti, eins og að versla í matinn eða ræktinni. Hún er með mjög mikinn athyglisbrest svo hún á það til að skrifa hugmyndir sínar ekki niður og gleymir því þeim oft. Hún segir þó að það sé alltaf ein og ein sem helst og þá skrifa hún það niður.

„Svo bý ég í Berlín, það er svona borg sem gefur mér mjög mikinn innblástur. Á hverjum degi þá er ég í sjokki yfir því hvað ég verð aldrei þreytt á henni eða hún verður aldrei leiðinleg. Það er oft nóg að fara út í einn góðan göngutúr og horfa bara á fólkið og skoða umhverfið mitt og þá einhvern veginn dettur mér í hug eitthvað sniðugt.“ 

Í Skaparanum hittir tónlistarkonan Hildur Kristín Stefánsdóttir skapandi fólk úr öllum geirum og spyr spurninga um það hvernig það skapi, hvernig það vinni hugmyndir og hvað það gerir við hugmyndastíflu. Skaparinn er fyrir alla skapara og forvitið fólk sem kann að meta góðar hugmyndir.

Þú getur hlustað á þáttinn í spilaranum hér fyrir ofan og í öllum helstu hlaðvarpsveitum og Spotify.