Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Byggingar rýmdar á Ísafirði

25.01.2012 - 16:06
Mynd með færslu
 Mynd:
Veðurstofan hefur lýst yfir hættustigi á Ísafirði vegna snjóflóðahættu. Búið er að rýma einn reit í bænum en þar er eingöngu atvinnuhúsnæði. Snjóflóð hafa fallið á vegina um Súðavíkurhlíð og Eyrarhlíð og einnig á Siglufjarðarveg.

Veðurstofan lýsti nú fyrir stundu yfir hættustigi vegna yfirvofandi snjóflóða á Ísafirði. Iðnaðarhverfi undir Seljalalandshlíð hefur verið rýmt en ákvörðun um frekari aðgerðir vegna snjóflóðahættunnar verður tekin undir kvöld.

Vegirnir um Súðavíkurhlíð og Eyrarhlíð eru lokaðir vegna snjóflóðahættu. Veginum milli Súðavíkur og Ísafjarðar var lokað fyrir hádegi en þá höfðu smá-spýjur farið yfir veginn. Lítið flóð féll yfir veginn milli Ísafjarðar og Hnífsdals eftir hádegi og var veginum lokað um hálffjögur eftir að fólk sem þurfti að fara þar um hafði fengið að fara til síns heima.

Siglufjarðarvegi hefur einnig verið lokað. Þar féllu tvö flóð skammt frá Miðstrandargili. Víða á Vestfjörðum og á Norðurlandi er varað við snjóflóðahættu. Þá er varað við stormi á Vestfjörðum, allt að ttuttugu metrum á sekúndu í kvöld og í nótt.