Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bygging ásatrúarhofs dregist mikið

23.06.2019 - 21:33
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Fjögur ár eru síðan fyrsta skóflustungan var tekin að hofi Ásatrúarfélagsins í Öskjuhlíð. Allsherjargoði segir framkvæmd hafa verið setta á bið meðan félagið afli sér peninga fyrir framkvæmdinni.

Reykjavíkurborg úthlutaði Ásatrúarfélaginu lóð árið 2006. Fyrsta skóflustungan var tekin níu árum síðar. Tafir urðu við undirbúning lóðarinnar, meðal annars vegna veitumála og hafist var handa við að byggja húsið árið 2017.

Nú hafa framkvæmdir verið settar á bið og segir Hilmar Örn Hilmarsson, allsherjargoði, ástæðuna vera að félagið vilji hafa efni á verkefninu og því byggja í áföngum. Stefnt er að því að skrifstofa og félagsaðstaða verði tilbúin í vetur.

Bankinn vill ekki lána til trúarbygginga 

Helst hafi tafið framkvæmdir að banki félagsins hafi neitað að lána félaginu á þeim grundvelli að ekki væri lánað til framkvæmda vegna trúarbygginga.  „Bankakerfið hefur verið óskaplega erfitt við okkur, þó erum við myndi ég segja best rekna trúfélag á Íslandi og höfum góða geiðslugetu," segir Hilmar.

Samkvæmt formanni skipulags- og samgöngurráðs borgarinnar á byggingarleyfi að gilda í tvö ár frá því að framkvæmdir hefjast, en hægt er að sækja um framlengingu á því ef framkvæmdir stöðvast af einhverri ástæðu. Fjögur ár er síðan fyrsta skóflustungan var tekin.

Menningarhús með fyrirlestra og tónleika

Gert er ráð fyrir að heildarkostnaður verði um 280 milljónir en kostnaður til þessa er um 150 milljónir. Hilmar segir að húsið verði fyrst og fremst menningarhús, félagið hafi varðveisluskyldu vegna menningararfs Ásatrúarfélagsins. Þá verði þar til að mynda fyrirlestrar og tónleikar. Þó sé ekki ljóst hvenær húsið verði fullklárað.

 „Ég er að vona ef okkur tekst að koma að þessari hópfjármögnun sem við höfum verið að skipuleggja síðan í vor að þá ættum við að geta klárað í besta falli á næsta ári en það getur tekið tvö ár," segir hann.