„Búningarnir eru hernaðarleyndarmál“

Mynd: RÚV / RÚV

„Búningarnir eru hernaðarleyndarmál“

15.02.2020 - 10:55

Höfundar

Íva Marín, sem flytur lagið Oculis Videre í seinni undanúrslitum Söngvakeppninnar í kvöld, er búsett úti í Rotterdam þar sem hún leggur stund á klassískan söng í sömu borg og Eurovision fer fram í ár. Hún segir allt tilbúið fyrir atriðið í kvöld en vill ekki gefa neitt upp.

Þegar Björg Magnúsdóttir sló á þráðinn til Ívu í Rotterdam í vikunni var hún stödd í miklum vindi og fimbulkulda fyrir utan tónlistarháskólann þar í borg. Hún hefur æft stíft fyrir keppninga síðustu vikur en segir að það sé ekki þrautalaust að æfa svona atriði á milli landa. „Það kostar mikil samskipti á samfélagsmiðlum. Ég er orðin sjóuð í Skype-fundum og löngum póstum á Facebook,“ segir hún kímin.

Íva er mætt til landsins og tilbúin að stíga á svið í kvöld og viðurkennir hún að æfingarnar gangi betur nú þegar allir eru á sama stað. „Það er allt annað að vinna með fólki augliti til auglitis heldur en í gegnum einhver forrit. Það er miklu skilvirkara og hraðvirkara og gaman þegar allir eru loksins að komast á sömu blaðsíðuna.“

Aðspurð um búninginn sem hún kemur til með að klæðast í kvöld verður Iva leyndardómsfull á svip. „Búningarnir eru hernaðarleyndarmál eins og er, þar til á laugardag. Ég er spennt að sjá hvernig fólk mun taka þeim.“

Seinna undankeppni Söngvakeppninnar fer fram í Háskólabíói í kvöld og hefst útsendingin á RÚV og ruv.is klukkan 19:45.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Tilviljanir eða samsæri í Söngvakeppninni?

Popptónlist

„Amma var ungfrú Reykjavík árið 1959“