
Atli var dæmdur fyrir manndráp í maí 2001. Samtímis var hann sviptur málflutningsréttindum. Hann sat inni í tíu og hálft ár og lauk afplánun 2010. Frá þeim tíma hefur hann starfað á lögmannsstofu sem lögfræðingur.
Fyrir áramót fékk Atli uppreist æru sem þýðir að hann er nú með óflekkað mannorð. Atli hefur lagt inn beiðni til Héraðsdóms Reykjavíkur um að réttindasvipting hans verði felld úr gildi svo hann geti fengið málflutningsréttindi sín að nýju.
Til að geta starfað sem lögmaður verður viðkomandi að hafa óflekkað mannorð. Hulda María Stefánsdóttir, sérfræðingur í refsirétti, segir alla geta fengið uppreist æru að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
„Ef viðkomandi hefur hlotið árs fangelsisdóm og það eru fimm ár liðin frá afplánun refsingar þá fær hann sjálfkrafa uppresit æru. Það er ráðuneytið sem sér um að veita uppreist æru,“ segir Hulda María.
„Síðan er hægt að fá uppreist æru þótt þú hafir framið alvarlegra brot og þótt það sé minni tími en fimm ár liðin frá afplánun refsingar. Þetta getur líka verið frá því að þú fékkst reynslulausn, það er ekki bara þegar þú klárar afplánun í fangelsi. Það skiptir ekki máli hvaða brot þú fremur eða hvaða fangelsisdóm þú færð, það geta allir sótt um uppreist æru.“