Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Búið að staðfesta 20 smit

04.03.2020 - 12:20
Mynd: RÚV / RÚV
Fjórir hafa greinst með COVID-19 veikina í morgun. Þar með er búið að staðfesta smit 20 Íslendinga. Allir þeir sem eru með staðfest smit smituðust erlendis og komu síðan hingað til lands.

Þessu greindu Almannavarnir frá í hádeginu. Sjö smit voru staðfest í gær og fjögur það sem af er degi í dag. 

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra, sagði í hádegisfréttum RÚV að tveir þessara fjögurra hefðu komið frá Veróna í Norður-Ítalíu og tveir frá Austurríki í gegnum München. Tilfellin tengjast þeim hópum sem hafa verið til skoðunar undanfarið. Víðir sagði að viðbúið væru að fleiri yrðu settir í sóttkví.

„Það er enginn á sjúkrahúsi,“ sagði Víðir. Hann sagði að enginn væri mjög veikur en fólki gæti versnað. Því gætu borist tíðindi af alvarlegri veikindum þegar líði nær helginni."

Áfram verður unnið að því að taka og greina sýni úr fólki og viðbúið að fleiri eigi eftir að greinast með smit. „Við fáum tvisvar í dag niðurstöður,“ sagði Víðir í hádegisfréttum í dag. „Það verður þannig örugglega að við erum að fá fleiri staðfest tilfelli.“

Hátt í 300 sýni hafa verið tekin og rúmlega 300 eru í sóttkví. Hótelið í Reykjavík sem var leigt undir sóttkví erlendra ferðamanna stendur enn autt.

Fréttin var uppfærð 12:26.