Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Búið að slaka um of á reglum um jarðakaup

18.07.2019 - 16:21
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Samgöngu- og sveitastjórnarráðherra vill horfa til Norðmanna og Dana þegar kemur að því að setja lög um kaup auðmanna á jörðum. Þar ber kaupendum að hafa lögheimili skráð á jörðinni.

Fjallað var um kaup auðmanna á jörðum í kvöldfréttum RÚV í gærkvöld. Þar boðaði forsætisráðherra lagabreytingu á komandi þingi.

Landið okkar sjálft ein af okkar helstu auðlindum

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu og sveitastjórnarráðherra, segist vilja líta til Dana og Norðmanna í þeim efnum. „Upp úr aldamótum þá var undið ofan af öllum girðingum sem menn höfðu. Sem í mínum huga eru eðlilegar varnir til þess að verja auðlindir landsins. Ein af okkar helstu auðlindum er landið okkar sjálft. Og þess vegna er ég búinn að vera á þeirri skoðun mjög lengi, allt frá því að ég var oddviti í Hrunamannahreppi og við vorum að vinna í skipulagsmálum, að við þyrftum að taka nokkuð fast á þessum málum og horfa til fyrirmynda, ekki síst Norðmanna og Dana  í þeim málum.“

Losað hafi verið um of um jarðalög hér á landi

Hann segir að þau lönd séu bæði innan EES svæðisins og því sé ekkert því til fyrirstöðu að beita aðferðum sem þar tíðkist. Í Danmörku sé til að mynda gerð krafa um að eigendur jarða séu með skráð lögheimili á jörðunum og að þar sé stundaður búskapur eða önnur starfsemi. Sigurður segir að losað hafi verið um of um jarðalög hér á landi um aldamótin. Herða þurfi reglur um jarðakaup. „Þessi þróun hún er óásættanleg og það er mjög mikilvægt að við tökum utan um þetta mál. Þetta er eitthvert almikilvægasta mál er varðar auðlindir landsins, það er landið sjálft.“