Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Búið að opna Reykjanesbraut

13.01.2020 - 00:45
Mynd með færslu
 Mynd: Vegagerðin
Reykjanesbrautin hefur verið opnuð fyrir umferð milli höfuðborgarsvæðisins og Reykjanesbæjar, eftir að hafa verið lokuð í nokkrar klukkustundir vegna veðurs og alvarlegs umferðarslyss. Var opnað milli Reykjanesbæjar og höfuðborgarsvæðisins laust fyrir miðnætti en síðasti spölurinn frá Rósaselstorgi að Leifsstöð var opnaður um klukkan eitt. Grindavíkurvegur og Sandgerðisbraut eru líka opin fyrir umferð..

Alvarlegt slys varð á móts við álverið í Straumsvík um klukkan hálf tíu í kvöld og var Reykjanesbrautinni lokað milli Hafnarfjarðar og Reykjanesbæjar á meðan viðbragðsaðilar voru að athafna sig. Ekki hafa fengist aðrar upplýsingar um slysið en að það hafi verið alvarlegt. Um miðnæturbil luku viðbragðsaðilar störfum og var Reykjanesbrautin þá opnuð fyrir umferð milli Hafnarfjarðar og Reykjanesbæjar. Þar er þó enn hált.

Fyrr í kvöld var spottanum milli Reykjanesbæjar og Flugstöðvar Leifs Eiríkissonar lokað vegna aftakaveðurs og skafrennings. Fjöldi bíla festist, bæði fólksbílar og rútur, og þurfti að kalla út björgunarsveitir til að aðstoða fólk í vanda. Einhver dæmi voru um að fólk yfirgæfi bíla sína og freistaði þess að ganga síðasta spottann í Leifsstöð, en því fólki var hjálpað inn í aðra bíla áður en illa fór, þannig að engum varð meint af, svo vitað sé.

Um klukkan eitt tókst að opna þennan síðasta spotta fyrir umferð, og þá ætti sá mikli fjöldi fólks sem setið hefur fastur í Leifsstöð að komast leiðar sinnar. Um 4.000 manns biðu í Leifsstöð þegar mest var, ýmist fólk sem var að koma til landsins seinnipartinn eða fólk sem ætlaði úr landi, en komst ekki þar sem öllu flugi var aflýst, og komst heldur ekki aftur til Reykjavíkur. 

Grindavíkurvegi var líka lokað í kvöld en hann er nú opinn fyrir umferð, rétt eins og Sandgerðisbraut.

Fréttin var uppfærð klukkan 01.10, þegar tekist hafði að opna spölinn milli Leifsstöðvar og Reykjanesbæjar.