Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bubbi inn við beinið: Kraftmikil og mögnuð sýning

Mynd: Borgarleikhúsið / Níu líf

Bubbi inn við beinið: Kraftmikil og mögnuð sýning

17.03.2020 - 19:50

Höfundar

Leikhúsrýnir Menningarinnar segir Níu líf kraftmikla og magnaða sýningu þar sem viðfangsefnið Bubbi Morthens sé krufið af mikilli virðingu án þess að fegra eða skrautskrifa, pússa eða draga undan. Nálgunin er einlæg, hrá og fersk og snertir bæði á fortíð okkar og samtíð.

Brynhildur Björnsdóttir skrifar:

Bubbi Morthens er hluti af þjóðarsál Íslendinga en svo sannarlega ekki rólega hlutanum sem rær sáttur fram í gráðið. Bubbi hefur alltaf verið reiður, glaður, ástfanginn, kaldhæðinn, hugsjónamaður, mótsagnakenndur en samt svo heill, allar tilfinningarnar, allan hringinn. Slíkri goðsögn er nauðsynlegt að gera skil á heiðarlegan hátt, hvorki með yfirborðskenndri yfirreið yfir glæstan tónlistarferil né mærðarlegri skrautsýningu um Óskaöskubusku þjóðarinnar; nauðsynlegt er að ganga nærri viðfangsefninu til að gera því raunveruleg skil, sem getur reynst flókið á meðan það gengur, keyrir, veiðir, rífst, hlær eða syngur við hliðina á okkur. 

En það tekst! Viðfangsefnið Bubbi Morthens er í sýningunni Níu líf í Borgarleikhúsinu krufið af mikilli virðingu án þess að fegra eða skrautskrifa, pússa eða draga undan. Bubbinn sem dreginn er upp í sýningunni er óskaplega mennskur, óþolandi en samt ómótstæðilegur, ómögulega mögulegur.

Í sýningunni er sú leið farin að láta átta leikara leika Bubba á ólíkum aldursskeiðum og allir eru þeir góðir, hver á sinn hátt. Vel er unnið með hvernig þeir fléttast saman, hvað verður til þess að einn víkur fyrir öðrum, hver er ráðandi í hverri senu og hverjir eru á staðnum eða snúa aftur þó að þeirra tími sé liðinn þegar aðstæður eða atvik krefjast þess. Þessi sýning hlífir Bubba ekki neitt, hann er sýndur í árásarham, á kafi í neyslu, í góðærisgír og sjálfsblekkingu. Hann bregst meira eða minna öllum um tíma, mikilvægustu konunni í lífi sínu, móður sinni með því að vera út úr heiminum á meðan hún heyjar sitt dauðastríð, fyrstu tveimur eiginkonum sínum með því að vera þeim vonlaus maki og mest af öllum sjálfum sér.

Mynd með færslu
 Mynd: Borgarleikhúsið - Níu líf

Frásögnin er mest línuleg en þó er skemmtilega farið með ýmsar mælistikur og þekkt atvik úr lífi Bubba sem eru sýnd eða vitnað til þeirra, án þess að þau séu endilega í réttri tímaröð eða innan réttra atvika. Þannig er t.d. skrifblinda Bubba sem varð honum bæði til trafala í skóla og í upphafi ferilsins (þar sem Þúsund þorskar stóðu í þeim sem fannst málfræðilega réttara að segja Þúsundir þorska) römmuð inn í skólastofu þar sem litliBubbi skrifar BOBA á töfluna þegar honum er um megn að skrifa orðið atómbomba. Gaman er fyrir áhorfendur að leita að vísbendingum af þessu tagi í textanum og á sviðinu leynist fullt af vísunum, margir konfektmolar sem ekki eru endilega augljósir.

Saga Bubba er líka saga síðustu rúmlega sextíu ára í sögu þjóðarinnar. Þekktar persónur og atvik eru notuð til að marka ævi hans en líka sögu okkar; Gvendur jaki, Silja Aðalsteinsdóttir, Bó, Davíð Oddsson, Vigdís Finnbogadóttir, Hemmi Gunn og fleiri stinga upp kollinum og minna á sig og samhengið, skemmtistaðir eins og Borgin og Safarí birtast ljóslifandi á sviðinu og í raun er tæpt á flestu því sem við vitum um Bubba og tengt við atburði í þjóðfélaginu. Sérstaklega eftirminnilegt er atriðið þegar Bubbi fer í Hemma Gunn og virðist ætla að opna sig en er kaffærður af Elsu Lund í gervi samfélags sem þolir ekki enn að heyra sannleikann.

Og svo er það auðvitað tónlistin! Bubbi er stórkostlegur laga- og textasmiður og tónlistin er notuð á markvissan hátt í sýningunni til að færa okkur inn í heim hennar, eða inn í hjartað á okkur sjálfum. Ég missti töluna á því frekar snemma hve mörg lög komu við sögu með einum eða öðrum hætti og í stóru tónleikasenunum var gersamlega ómögulegt fyrir áhorfendur að syngja ekki með.

Mynd með færslu
 Mynd: Borgarleikhúsið - Níu líf

Ef ætti að tína til galla má kannski helst segja að sýningin hafi farið frekar hægt af stað og hefðbundið miðað það sem á eftir kom. En það er kannski líka styrkur hennar að vissu leyti, að keyra hana hægt og rólega af stað svo hún gæti sprungið út á vertíðinni, eins og Bubbi sjálfur sem listamaður.

Leikhópurinn var þéttur og allir brugðu sér í fleiri en eitt hlutverk. Hlynur Atli Harðarson lék litla Bubba í sýningunni sem ég sá en þrír drengir skipta með sér hlutverkinu. Hlynur gerði það með frábærum tilþrifum, bæði í sínum hluta sögunnar og ekki síður þegar hann skaut upp kollinum þegar lengra var liðið á æviskeiðið. 

Rakel Björk Björnsdóttir lék Bubba á unglingsárum, nokkuð sem ekki endilega veitti tækifæri á mikill breidd. Hún fór hins vegar mjög fallega með bæði Ingu og Brynju, fyrstu konurnar hans Bubba, og söng sín lög mjög vel, einkum var samsöngur hennar og Arons Más í Rómeó og Júlíu eftirminnilegur.
Aron Már Ólafsson var sennilega Bubbalegasti Bubbinn, bæði söngröddin og útlitið sem minnti mikið á Bubba ungan, trúbador á vertíð sem varð ástfanginn og barðist fyrir hugsjónum verkalýðsins. Björn Stefánsson var dálítið Mick Jaggerlegur UtangarðsmannaBubbi en mjög sterkur, bæði í söng og leik. Ég var aðeins efins í fyrstu um Halldóru Geirharðsdóttur sem Bubba á Egótímabilinu. Fjöllin hafa vakað er stórkostlegt lag og mér fannst hún ekki ná að syngja það af þeim krafti sem lagið á skilið, sem kom þó kannski ekki að sök því salurinn tók svo hressilega undir. Sem hinn vímuvitlausi Bubbi í senunum sem á eftir komu, á Safari og í Ameríku, náði hún mér hins vegar alveg niður í gæsahúð hvað eftir annað. Halldóra er mjög sterk leikkona sem nýtur sín best þegar hún fer alla leið og það fékk hún sannarlega að gera þarna.

Mynd með færslu
 Mynd: Borgarleikhúsið - Níu líf

Hjörtur Jóhann Jónsson leikur edrúBubba og passaði útlitslega afskaplega vel í hlutverkið, hann var einnig sannfærandi og söngurinn góður. Ég var ekki alveg sannfærð um Jóhann Sigurðarson sem Bubba í fyrstu en hann smellpassaði sem góðærisBubbi sem kemur akandi inn á svið á stórum jeppa, önnum kafinn við að selja í sér sálina.

Valur Freyr Einarsson er svo Bubbinn sem við þekkjum í dag, sáttur heimilisfaðir í Kjósinni sem lætur sig enn óréttlæti varða og er loks tilbúinn að horfast í augu við sjálfan sig og mótandi atburði í æsku.

Esther Talia Casey lék nokkur mikilvæg kvenhlutverk vel, hafði greinilega stúderað danskan hreim leikkonunnar Charlotte Böving svo vel að hún hreinlega hljómaði alveg eins í hlutverki Grethe móður Bubba sem sennilega var mikilvægasta konan í lífi hans og fór einnig með hlutverk Hrafnhildar núverandi konu hans. Ekki má gleyma að hún söng nokkur fallegustu Bubbalögin einstaklega vel.

Að auki voru þrír dansarar og stúlknakór á sviðinu þegar mest lét, sem allir stóðu sig hið besta.

Stundum er sagt um listamenn að það sé til marks um snilld þeirra hvernig þeim tekst til við að fá að láni, auka og endurbæta og gera að sínu. Ólafur Egill Egilsson fær hér margt að láni, til dæmis úr myndinni I'm Not There sem fjallar um ævi Bob Dylan en þar eru sjö ólíkir leikarar látnir túlka Dylan. Munurinn er kannski sá að Dylan kom hvergi nærri þeirri mynd en Bubbi sjálfur var mjög viðloðandi gerð þessarar sýningar, bæði er sótt í ljóðabækur hans, texta og orð en svo var hann líka innan seilingar til skrafs og ráðagerða. Ólafi ferst mjög vel úr hendi að feta einstigið milli virðingar fyrir Bubba og þess að hlífa honum hvergi við sjálfum sér og fléttar úr flóknum efniviði lifandi og áhrifamikla sýningu.

Filippía Elísdóttir dregur upp tíðaranda og tímabil með búningum sínum, sem er lykilatriði í sýningunni. Búningar Bubba eru lýsandi fyrir tímabilin í lífi hans sem til umfjöllunar eru hverju sinni, vísa bæði til þess hver hann er á þessum tímum en líka til þess sem er að gerast í samfélaginu, samanber hvíta smókinginn á góðæristímabilinu.

Mynd með færslu
 Mynd: Borgarleikhúsið - Níu líf

Lýsing Björns Bergsteins Gunnarssonar var frábær. Þess er getið í upphafi að Bubbi sjái allt sem liti, bæði tónlist og fólk, og lýsingin virðist unnin út frá þeirri hugmynd; hvert tímabil á sér lit og þetta er sérstaklega áberandi í fyrsta atriði eftir hlé þar sem heimsmyndin/leikmyndin er hrunin, Bubbi kominn í meðferð og daufgul birta alltumlykjandi á sviðinu í minningu móður hans sem hann sá alltaf sem gula.

Tónlistarstjórn Guðmundar Óskars Guðmundssonar hittir í mark og bregður hljómsveitin sér í marga hami, sveiflusveit með Hauki Morthens, kántríband með Björgvin Halldórssyni og öskrandi rokkið með Utangarðsmönnum. Tónlistarmanninum Bubba Morthens er engin tónlistarstefna óviðkomandi og það skilar sér vel í sýningunni.  

Danshöfundurinn Lee Proud hafði aldrei heyrt á Bubba minnst þegar hann tók að sér verkefnið og kemur því ferskastur allra að sýningunni. Dansarnir voru kraftmiklir og undirstrikuðu tíðarandann, hvort sem var í Kassagerðinni eða Safarí 1988. Dansatriði Ingu og Bubba í trolli var reyndar frekar klaufalegt, bæði langt og hafði ekki tilætluð áhrif.

Leikmynd Ilmar Stefánsdóttur virkaði ekki spennandi á mig til að byrja með en vatt heldur betur upp á sig og frábært var hvernig henni tókst að draga upp ljóslifandi bæði frystihús og kassagerð, einkum er nýting á lyftara á sviðinu æðisleg og svo hvernig sviðið er tómt í upphafi seinni hálfleiks þegar Bubbi hefur brennt allar brýr og þarf að læra upp á nýtt að vera til.

Níu líf er ofboðslega kraftmikil og mögnuð sýning. Nálgunin er einlæg, hrá og fersk og snertir bæði á fortíð okkar og samtíð en sýnir líka heillandi og breyska mennsku sem öllum er hollt að horfast í augu við öðru hvoru. Þegar svo níundi Bubbinn, Bubbi sjálfur, stígur á svið í lokin og kvittar undir sýninguna með návist sinni og þátttöku er hringurinn fullkomnaður og fagnaðarlátum hásyngjandi áhorfenda ætlar aldrei að linna. Það má reikna með að þau fagnaðarlæti taki sig upp eftir að samkomubanni lýkur.

Tengdar fréttir

Tónlist

„Við erum Bubbi og Bubbi er við“

Tónlist

Ástarlög geta líka fjallað um ofbeldi og neyslu

Tónlist

Aron Mola varð kjaftstopp þegar Bubbi gekk inn

Tónlist

Guðrún Eva og Bubbi fá menningarviðurkenningar RÚV