Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Búast má við aldauða dýrategunda í Ástralíu

09.01.2020 - 15:20
Mynd: ÞÓL / rúv
Búast má við aldauða einhverra dýrategunda í Ástralíu vegna eldanna sem þar geisa. Þetta er mat Rannveigar Magnúsdóttur spendýravistfræðings sem var þar fyrir nokkrum árum við rannsóknir á lítilli fenjapokamús.

Dýr í útrýmingarhættu

Rannveig segir að félagar hennar og kollegar í Ástralíu séu í áfalli. Eldarnir séu mestu hamfarir sem þar hafa orðið í manna minnum. Mörg dýr séu í útrýmingarhættu.  Hún veit ekki hvað verður um litlu fenjapokamúsina sem hún var að rannsaka. 

„Svona dýr, sem bæði eru með viðkvæman lífsferil og búa á takmörkuðu svæði eins og þetta dýr sem ég var að rannsaka, eru í sérstakri hættu þegar svona hamfarir koma yfir.“

Allir viti um Kóalabirnina sem eru stórir og krúttlegir og kengúrurnar þekkja allir líka.   

„Þessar tvær tegundir eru mjög sjarmerandi. Allir elska kóalabangsa. Það er auðvelt að finna þá. Þeir eru skríðandi út um allt og fólk tekur þá upp í bílana sína. En þessar litlu tegundir, þær eru kannski bara á ferli á nóttunni eða í ljósaskiptunum. Þau eru í rauninni áhyggjuefni okkar vistfræðinganna því þau hverfa kannski bara án þess að fólk taki eftir þeim.“

Stjórnlaust eldhaf

Talið er að um milljarður dýra hafi drepist nú þegar.   

„Þessi svæði halda áfram að brenna. Svæðin eru að stækka og það eru tveir mánuðir eftir af þessum eldtíma. Eldar í Ástralíu eru náttúrulegt fyrirbæri. 

En þetta eldhaf núna, við erum að tala um 80 prósent af Íslandi, þetta eru svæði á skala sem við náum ekki yfir. Þegar svona stór svæði brenna þá er þetta algerlega stjórnlaust og ekkert hægt að ráða við það“

Lífbreytileikinn minnkar

„Átt þú von á því að eitthvað af þessum dýrum verði aldauða? Mér finnst það rosalega líklegt því miður, bæði spendýr og svo eru nátturlega líka eðlur og froskar, það eru fuglar, það eru allls konar plöntur, það eru sveppir. Þannig að það er eiginlega alveg ljóst að það verður einhver aldauði einhvers staðar. Mér finnst það því miður mjög líklegt.“

Dýrin drepast í eldinum og af reyknum en þau dýr sem lifa af eiga ekki sjö dagana sæla og geta drepist úr næringarskorti.

„Þau geta verið heppin og komið inn á svæði sem er tiltölulega fljótt að jafna sig og þau lifa það af. Það eru alveg til þannig svæði [...] en þau sem eru óheppin, lifa af eldana og koma inn á svæði aftur, þau geta verið það óheppin að það sé allt farið. Þá erum við að tala um að það er ekkert skjól, það er enginn matur, það er ekkert vatn, það bíður þeirra ekkert nema dauði.“

Býstu við því að ástralska fánan breytist vegna þessa? „Það er mjög líklegt já“

Rannveig segir að þegar tegundir tapast verði mkilar breytingar á svæðinu og lífbreytileikinn minnkar.

„Það er alltaf slæmt af því að við getum verið að tapa tegundum sem geta verið mjög mikilvægar í vistkerfinu þannig að við erum að tapa kannski dýrategundum sem eru að hjálpa plöntunum að frjóvgast og komast á milli staða. Við erum að tapa bráð fyrir rándýr. Vistkerfin eru svo mikilvæg.“ 

Náttúruhamfarir af manna völdum 

„Og þegar við erum að lama kerfið með einhvers konar náttúruhamförum af manna völdum eins og er að gerast núna erum við að breyta þessu alveg svakalega mikið.“  

„Þetta eru náttúruhamfarir af manna völdum á ofboðslega stórum skala og það er búið að spá þessu. Þetta kemur engum vistfræðingum eða loftslagssérfræðingum á óvart.

Og afleiðingarnar? Afleiðingarnar fyrir dýrin eru eins og ég segi, aldauði einhverra tegunda og gríðarlegir erfiðleikar á næstu árum og áratugum við að byggja upp vistkerfin.“ 

  
 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV