Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Búa til járn úr íslensku hráefni

01.09.2019 - 21:10
Mynd: Rúv / Rúv
Járn úr íslenskum mýrarrauða er búið til eftir þúsund ára aðferð á Járngerðarhátíð á Eiríksstöðum í Haukadal. Gestum og gangandi býðst að taka þátt í járngerðinni sem og öðru víkingahandverki, þar á meðal járn- og glerperlugerð, vattarsaum og flatbrauðsbakstri.

Hátíðin er nú haldin í fyrsta sinn og er sótt af handverksáhugafólki og -sérfræðingum frá Íslandi og útlöndum. Undirbúningur hefur staðið yfir um langt skeið og sumarið farið í að búa til kol úr við úr Vaglaskógi á Norðurlandi, safna mýrarrauða til járngerðar og prófa leir úr íslenskum jarðveg til ofnagerðar. 

Byggt er á fornleifafundum og vitneskju um Landnámstímann og eftirmynd aðferða þeirrar tíðar þannig endursköpuð. Þó eru skiptar skoðanir og oft þörf á að geta í eyðurnar til þess að geta gert það sem víkingar gerðu áður

„Það er alltaf spurning um túlkanir. Þær geta verið mjög ólíkar. Það eru skiptar skoðanir um hvernig að gera hlutina en þetta er svona eins nálægt og hægt er að komast með hvernig þeir voru að gera þetta,“ sagði Fanndís Hulda Valdimarsdóttir í kvöldfréttum. Hún hóf víkingaglerperlugerð 2013.

elsamd's picture
Elsa María Guðlaugs Drífudóttir
Katrín Ásmundsdóttir
vefritstjórn