Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Búa sig undir veiruna í Keflavík og hjá Rauða krossinum

29.01.2020 - 12:25
Mynd með færslu
Flugstöðin á Keflavíkurflugvelli er meira og minna mannlaus þessa dagana. Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Á Keflavíkurflugvelli er verið að gera ráðstafanir vegna hugsanlegrar komu Wuhan-veirunnar hingað til lands. Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi ISAVIA, segir að andlitsgrímur fyrir starfsfólk á Keflavíkurflugvelli séu væntanlegar í dag. Þá segir hann að fulltrúar frá sóttvarnarlækni hafi í morgun átt fund með forsvarsmönnum fyrirtækja á flugvellinum, þar sem farið var yfir stöðu mála.

Brynhildur Bolladóttir, upplýsingafulltrúi Rauða krossins, segir að þar á bæ sé einnig töluverður undirbúningur í gangi.

„Rauði krossinn er að undirbúa sig fyrir verstu mögulegu aðstæður, ef hér kemur fjöldi fólks sem þarf að hafa í sóttkví, þá myndum við opna sóttvarnarmiðstöð ef heilbrigðisstofnanir gætu ekki annað fjöldanum.“

Eruð þið byrjuð að undirbúa opnun slíkrar miðstöðvar?

„Við erum bara að skoða hvaða möguleikar eru í stöðunni, og að athuga búnað og þannig. Þannig að þetta er á fyrstu stigum en við vonum auðvitað að það komi ekki til þess.“

Er búið að finna einhvern stað fyrir sóttkví?

„Nei það er ennþá í skoðun,“ segir Brynhildur.