Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

BSRB mótmælir einkavæðingarhugmyndum

27.06.2019 - 15:38
Mynd með færslu
 Mynd: Íslandspóstur - postur.is
BSRB, samtök opinberra starfsmanna, vilja alls ekki einkavæða Íslandspóst, eins og fjármálaráðherra vill gera. Samtökin telja engin haldbær rök vera fyrir einkavæðingu Póstsins og hvetja jafnframt til þess að hætt verði við öll áform um frekari einkavæðingu „samfélagslega mikilvægra innviða.“

Haft er eftir Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra í Fréttablaðinu í dag að hann telji að ekkert sé því til fyrirstöðu að selja fyrirtækið um leið og búið sé að koma lagaumgjörð um starfsemi þess í betra horf og gera nauðsynlegar breytingar á rekstri þess. Umbætur séu vel á veg komnar og einkavæðing Íslandspósts því ákjósanleg.

Rekstur Íslandspósts hefur verið erfiður undanfarið og ríkið þurft að leggja Póstinum til mikið fé. Hagræðingaraðgerðir voru kynntar í vikunni, sama dag og skýrsla Ríkisendurskoðunar um stofnunina var gerð opinber. Nýr forstjóri Póstsins hefur boðað frekari aðgerðir.

Meginþorri starfsmanna Íslandspósts er í Póstmannafélagi Íslands, sem er eitt af aðildarfélögum BSRB. Í bréfi sem Magnús Már Guðmundsson, framkvæmdastjóri BSRB, sendi fjármálaráðherra í dag, er hugmyndum um einkavæðingu Póstsins mótmælt harðlega. „Bandalagið telur engin rök fyrir einkavæðingu á póstþjónustu, sem á að vera órjúfanlegur hluti af almannaþjónustunni,“ segir í bréfinu.

Samtökin óttast að einkavæðing hefði í för með sér verri þjónustu og aukinn kostnað fyrir almenning og slæm áhrif á réttindi starfsfólks. „Póstþjónusta er samfélagsþjónusta rétt eins og heilbrigðisþjónustan, löggæsla, samgöngur og
fleira,“ segir framkvæmdastjóri BSRB.

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra sagði í viðtali við fréttastofu í dag að einkavæðing Póstsins hefði ekki verið rædd í ríkisstjórn. Það ætti eftir að koma í ljós hver árangurinn af umbótum í rekstrinum yrði. „Þannig að ég tel það ekki tímabært að fjalla um sölu á þessum tímapunkti,“ sagði Sigurður Ingi.

BSRB segir að vandi Íslandspósts hafi ekki verið eignarhaldið heldur skortur á stefnumótun. Nú þegar endurskipulagning félagsins sé framundan sé fráleitt að ætla sér að hefja undirbúning að einkavæðingu. Samtökin hvetja raunar til þess að hætt verði við öll áform um einkavæðingu „samfélagslega mikilvægra innviða,“ eins og segir í bréfinu.

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV