„Brýnt að við látum óttann ekki ná tökum á okkur“

08.03.2020 - 17:53
Mynd: Karl Sigtryggsson / RÚV
Guðni Th. Jóhannesson forseti segir sjálfsagt að fólk hafi áhyggjur af COVID-19 en kveður brýnt að áhyggjurnar verði ekki að angist eða ótta sem nái tökum á fólki. Ýmislegt hefur breyst á Bessastöðum eftir að COVID-19 smit fóru að greinast. Fólk er hætt að heilsast með handaböndum, sprittbrúsar eru til reiðu og ýmsum viðburðum sem forsetinn átti að taka þátt í hefur verið frestað. Eitt reyndist forsetanum erfiðara en annað, að venja sig á að hósta í handarkrikann frekar en höndina.

„Ég vil fyrst og fremst ítreka það sem ég hef áður sagt að við fylgjumst vel með leiðbeiningum og tilmælum landlæknis og framvarðarsveitar okkar í þessum málum,“ segir Guðni. „Það er svo brýnt að við stöndum saman núna, að við sýnum stillingu og gerum allt sem í okkar valdi stendur til þess að minnka útbreiðslu veirunnar og verja fyrst og fremst þá sem eru veikir fyrir.“

„Við hér getum staðið saman þegar á reynir. Það er svo margt sem við eigum að rífast um, eigum að deila um, eigum að karpa um í dagsins önn en stundum koma þær aðstæður að við hefjum okkur yfir það,“ segir Guðni. „Núna erum við í þessari glímu. Núna gerum við allt sem í okkar valdi stendur til þess að vinna bug á þessum vágesti. Svo getum við tekið upp þráðinn þar sem frá var horfið í öllu hinu.“

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV

„Ég held það sé svo brýnt að við látum óttann ekki ná tökum á okkur. Það er sjálfsagt að hafa áhyggjur og það er skiljanlegt en um leið er svo brýnt að áhyggjur verði ekki að angist,“ segir Guðni. „Við getum komið í veg fyrir það með því að tala saman, með því að sýna hvert öðru stuðning, og með því að sýna í verki að við erum að gera það sem við getum gert.“ Það sé til dæmis hægt að gera með handaþvotti og með því að heilsast með öðrum hætti en handaböndum eða faðmlögum.

Verum hluti af lausninni en ekki vandanum

Rætt hefur verið um möguleikann á samkomubanni. Heilbrigðisyfirvöld hafa ekki farið þá leið ennþá en möguleikinn er fyrir hendi. Aðspurður um viðbrögð ef samkomubann verður sett á svarar Guðni. „Þá tökum við því og högum okkar daglega lífi í samræmi við það. Það er ekki hundrað í hættunni þótt viðburðir falli niður.“

Guðni leggur áherslu á að fólk leggi sitt af mörkum og fylgist vel með leiðbeiningum og tilmælum heilbrigðisyfirvalda. „Við skulum vera hluti af lausninni, ekki hluti vandans. Allra brýnast er að við tökum því með jafnaðargeði.“

Nokkrar breytingar hafa orðið á Bessastöðum undanfarið. Þar er til dæmis ekki lengur heilsast með handabandi. Sprittbrúsar eru víða aðgengilegir. COVID-19 hefur líka haft áhrif á dagskrá forseta. Viðburðum hefur verið frestað eða þeir felldir niður. 

Erfitt með að breyta venjum við hósta

„Ég skal fúslega viðurkenna að eitt af því erfiðara sem ég átti með að tileinka mér var að hósta ekki sjálfkrafa í hendur þegar maður fær eitthvað kitl í hálsinn,“ segir Guðni. Þess í stað hefur hann vanið sig á að hósta í handarkrikann. Það gæti verið til bóta til lengri tíma. „Þá held ég að það verði jafnvel breyting til frambúðar, að við hóstum frekar í handarkrikann en í hendurnar og aukum þannig hreinlætið.“

Forsetinn beindi orðum sínum sérstaklega til barna og ungmenna: „Það er engin ástæða til að fyllast ofurkvíða. Við ætlum að gera það sem við getum til að vinna bug á þessari veiru og þá er brýnast að við höldum okkar ró og stillingu og vinnum saman. Við erum öll í sama liði og sýnum það í verki.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi